Segir Orkuveitu geta staðið við skuldbindingar sínar

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar Morgunblaðsins í morgun þar sem meðal annars er haft eftir Hjörleifi að frekara gengisfall íslensku krónunnar geti orðið fyrirtækinu erfitt.  

„Vill Orkuveita Reykjavíkur árétta að fyrirtækið er fullkomlega fært um standa við skuldbindingar sínar gagnvart erlendum og innlendum lánveitendum. Stöðugar tekjur þess í íslenskri mynt og stöðugt vaxandi tekjur í erlendum gjaldeyri gera því fyllilega kleyft að greiða afborganir og vexti af lánum fyrirtækisins, hvort sem þau eru í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.               

Mikilvægt er að horfa til greiðsluflæðis OR þegar lagt er mat á greiðslugetu fyrirtækisins og þeirrar staðreyndar að 20% af tekjum Orkuveitu Reykjavíkur eru í erlendri mynt. Erlendar tekjur OR eru frá langtíma raforkusölusamningum og því er áhætta vegna þeirra óveruleg. Þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar félli um tugi prósenta standa hinar erlendu tekjur undir skuldbindingum fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðlum. Slíkt myndi þó vissulega hafa neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu OR og afl fyrirtækisins til framkvæmda.               

Við hrun íslenska efnahagskerfisins síðasta haust ákvað stjórn fyrirtækisins að ljúka framkvæmdum við 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar þar sem samningar um sölu raforkunnar voru frágengnir og tekjur af fjárfestingunni tryggðar. Gert er ráð fyrir að þessi áfangi verði gangsettur í árslok 2011 og kemur hann til með að skila OR um þriggja milljarða króna tekjum á ári í erlendri mynt.                

Jafnframt hefur fyrirtækið unnið áfram að fráveituframkvæmdum á Vesturlandi sem eru mikil umhverfisbót fyrir þann landshluta. Framkvæmdir OR á yfirstandandi ári hafa numið um 19 milljörðum króna og áætlaðar lántökur vegna þeirra um 17 milljarðar. Unnið er að frágangi á láni frá Evrópska fjárfestingabankanum vegna þessara framkvæmda og skuldabréfaútboði á innlendum markaði. Fjárfestingar næsta árs eru áætlaðar um 18 milljarðar króna vegna þessarar mannaflsfreku uppbyggingarverkefna," að því er segir í tilkynningu sem forstjóri OR ritar undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert