Vill að bókin verði tekin úr umferð

Böðvar Guðmundsson
Böðvar Guðmundsson Ómar Óskarsson

„Það er nú eins og alltaf að þeir sem telja sig vera persónur í skáldsögum gera það alltaf á eigin ábyrgð,“ segir Kristján Kristjánsson, bókaútgefandi sem m.a. gefur út nýja skáldsögu Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn.  Helga Kress, prófessor í bókmenntafræði, hefur gert athugasemdir við bókina og krafist þess að hún verði tekin af markaði.

Bókin fjallar um ungan, þýskan tónlistarmann sem flyst til Íslands og giftist íslenskri stúlku nokkrum árum fyrir seinna stríð. Helga vill meina að sagan sé byggð á ævi föður hennar, Bruno Kress, án leyfis og án þess að heimilda sé getið. 

Bréfið sendi Helga á höfundinn sjálfan, á Rithöfundasambandið og Félag íslenskra bókaútgefenda. Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Uppheima sem gefa bókina út, segir að ekki verði farið að kröfum Helgu. „Hún sendir höfundinum þessa kröfu, en það er náttúrulega alls ekki á hans valdi að verða við henni eftir að við erum búin að semja um útgáfu á skáldsögu. Ég hef engar forsendur til að sannreyna það sem Helga Kress segir um þetta, þetta er skáldsaga og Böðvar hefur áður skrifað skáldsögur sem sækja á sögulegar slóðir.“

Í nafni Háskóla Íslands 

Eftir sem áður segir Kristján ekki hægt að gera þá kröfu að Böðvar geti heimilda þar sem ekki sé um eiginlegt heimildarit að ræða heldur skáldskap. Rithöfundur geti sótt sér innblástur í skáldsögu í hvaða efnivið sem er.

Kristján setur jafnframt spurningarmerki við það að pósturinn sé sendur í nafni Háskóla Íslands, en Helga skrifar undir hann sem prófessor við háskólann. „Mér finnst það mjög alvarlegt mál ef prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands sendir okkur og öðrum tölvupóst sem er merktur háskólanum og ætlar að hlutast til um útgáfuna okkar. Mér fannst það mjög sérkennilegt vegna þess að að öðru leyti er þetta mjög persónulegt bréf, en m.a. af þessari ástæðu sendi ég fyrirspurn um hvort hún væri raunverulega að gera þetta í nafni háskólans og hvort Háskóli Íslands ætli sér að standa í einhvers konar ritskoðun. Ég get eiginlega ekki orðað það öðru vísi, mér finnst þetta hið sérkennilegasta mál.“

Kristján segir að útgáfan muni halda óbreyttri stefnu og halda áfram að selja bókina. „Hún hefur selst alveg gríðarlega og fengið jákvæðar viðtökur hjá bæði lesendum og gagnrýnendum. Það er eiginlega alveg óframkvæmanlegt [að innkalla hana] og yrði okkur verulegt tjón ef að til þess ætti að koma, sem mér finnst algjörlega fráleitt.“
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert