Ekki æskilegt að nota persónuleg netföng

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði það ekki æskilegt að starfsmenn ráðuneyta noti persónuleg netföng í samskiptum sínum við erlendar stofnanir, s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Eðlilegt væri að þau færu fram í gegnum farvegi ráðuneyta.

Össur svaraði fyrirspurn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns, Sjálfstæðisflokks. Ragnheiður spurði um málið vegna frétta af tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis, við Mark Flanagan, fulltrúa AGS í málefnum Íslands. Indriði biður Flanagan um að senda svar við póstinum á persónulegt netfang hans.

Ragnheiður spurði hvort þetta væri gert með vilja annarra ráðherra og hvort mikið sé um það að starfsmenn ráðuneyta noti sín persónulegu netföng í slíkum samskiptum.

Össur sagði sér ekki kunnugt um að starfsmenn stjórnarráðsins notist við persónuleg netföng í störfum sínum. Það telji hann ekki æskilegt. Hann hins vegar benti á að Indriði hefur sjálfur skýrt málið með þeim hætti, að vegna ferðalaga hafi hann ekki alltaf haft aðgang að pósthólfi ráðuneytisins.

Umræddir tölvupóstar eru partur af trúnaðargögnum sem lögð voru fram þingmönnum til aflestrar þegar frumvarp var lagt fram í sumar um heimild fjármálaráðherra til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbankanum.

Össur sagði að Ragnheiður Elín væri helsti sein með gagnrýni sína í því ljósi að þingmenn hefðu haft aðgang að póstunum í  nokkra mánuði. Ragnheiður svaraði að trúnaður hefði ríkt á þessum gögnum þar til þau birtust opinberlega í gærkvöldi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert