Glitni gert að afhenda gögn

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Vilhjálms Bjarnasonar, lektors, um að Glitnir banki afhenti honum gögn sem fylgdu kröfulýsingu skilanefndar Glitnis í þrotabú Fons hf. Taldi dómurinn að ákvæði um bankaleynd ættu ekki við.

Vilhjálmur beindi kröfunni einnig að þrotabúi Fons en dómurinn hafnaði þeirri kröfu. 

Vilhjálmur er hluthafi í Glitni, sem var settur undir skilanefnd í október í fyrra. Vilhjálmur segir, að Glitnir hafi lánað Fons 24 milljarða króna, sem virðist nú tapaðar með öllu og sé kröfulýsing Glitnis í bú Fons vegna þess láns. Segist Vilhjálmur hafa leitað eftir því að fá gögn um kröfuna frá Glitni og Fons en þeir hafi hafnað því, Glitnir með því að bera fyrir sig bankaleynd.

Vilhjálmur segist hafa sem hluthafi í Glitni einkaréttarlega hagsmuni af því að vita hvernig hægt hafi verið að lána einum viðskiptamanni 24 milljarða króna og hafi lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum, sem varði þessa lánveitingu. Verið geti að hann höfði mál á hendur Glitni ef gögnin sýni að stjórnarmenn hafi ekki gætt hagsmuna bankans og hluthafa hans þegar þessi fjármunir hafi verið lánaðir.

Bendir Vilhjálmur á, að reglur laga um bankaleynd eigi að verja viðskiptavini, en ekki bankann. Viðskiptavinurinn, Fons í þessu tilviki, sé ekki lengur til, hafi orðið gjaldþrota og ný lögpersóna, þrotabúið, hafi tekið við.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að Fons sé gjaldþrota og erfitt sé að sjá hvaða hagsmuni það félag hafi af því að þessum upplýsingum sé haldið leyndum. Verði ekki séð að tilefni sé til af hálfu skilanefndar Glitnis að neita Vilhjálmi um aðgang að gögnunum, sem hann biður um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert