Landgræðsla gegn gróðurhúsaáhrifum

Skógrækt og landgræðsla skila mestum árangri gegn losun gróðurhúsalofttegunda.
Skógrækt og landgræðsla skila mestum árangri gegn losun gróðurhúsalofttegunda. mbl.is/Árni

Verkefnisstjórn um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum leggur til, að á næstu árum verði lögð áhersla á átta meginaðgerðir svo stjórnvöld geti staðið við skuldbindingar um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Segir verkefnsstjórnin að aðgerðir á sviði skógræktar og landgræðslu muni skila mestum árangri.

Verkefnisstjórnin segir að aðgerðirnar séu flestar á þremur sviðum: Samgöngum, sjávarútvegi og landnotkun. Þetta sé í samræmi við niðurstöður sérfræðinganefndar, sem komst að því að árangursríkustu og hagkvæmustu aðgerðirnar eru í þessum geirum.

Umræddar átta meginaðgerðir, sem eiga að leiða til 19-32% minni losunar gróðurhúsalofttegunda en ella hefði verið, eru eftirfarandi:

  • Breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti og aukin fræðsla
  • Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkosts í samgöngum
  • Notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann
  • Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja
  • Aukin skógrækt og landgræðsla þó í samræmi við ákvæði um líffræðilegan fjölbreytileika
  • Endurheimt votlendis
  • Innleiðing sam-evrópsks viðskiptakerfis með losunarheimildir
  • Efldar rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum.

Verkefnisstjórnin segir, að áhersla á þessar átta meginaðgerðir eigi að tryggja að íslensk stjórnvöld geti staðið við væntanlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum til 2020. Þótt þunginn í framkvæmd loftslagsstefnu verði í þessum meginaðgerðum eigi jafnframt að leita leiða til þess að draga úr losun í öðrum geirum, s.s. frá landbúnaði og með bættri meðferð úrgangs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert