Verktakalest skorar á þingheim

Byggingaverkamaður á vinnusvæði.
Byggingaverkamaður á vinnusvæði. mbl.is

Á morgun kl. 13.45 mun hópur verktaka og starfsmanna þeirra sem nefna sig Verktakalestina leggja af stað frá Hafnarfirði og til Alþingis og afhenda fjárlaganefndarmönnum áskorun. Í tilkynningu vegna þessa segir að Verktakalestin muni reyna að trufla umferðina sem minnst þar sem tilgangurinn sé ekki að beina mótmælum gegn almenningi heldur „skora á þingheim að auka við fjárheimildir til framkvæmda og  ráðast þegar í stað í arðbærar framkvæmdir.“

Þar segir ennfremur: „Engin önnur starfsgrein hefur orðið fyrir jafn miklum samdrætti og niðurskurði eins jarðvinnu og byggingariðnaðurinn. Sveitarfélög og fyrirtæki standa höllum fæti eftir efnahagshrunið og verða að draga saman og þá jafnvel um 80-90%. Fyrir þingið liggur tillaga um 60% samdrátt milli ára og þeir fjármunir munu aðeins duga fyrir þeim framkvæmdum sem nú þegar hafa verið settar af stað. Það mun þá þýða það, að engin ný útboð munu sjá dagsins ljós á árinu.

Vegagerðin auglýsir í Framkvæmdafréttum að engin ný útboð eru fyrirhuguð. Það mun þýða að þeir sem eru að ljúka sýnum verkum núna um áramótin sjá engin verkefni framundan og reksturinn mun stöðvast. Margföldunaráhrif munu eiga sér stað út í þjóðfélaginu þannig að tengdar atvinnugreinar munu einnig stöðvast. Við viljum eiga framtíð og við viljum búa á Íslandi. Verktakar og starfsmenn þeirra eru líka fólk og eiga fjölskyldur. Það er ekki eftir neinu að bíða.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert