Ælur og hland í bland

Sóðaskapur í Austurstræti
Sóðaskapur í Austurstræti

Sérhvern morgun um helgar sópa hópar hreingerningarmanna upp drasl eftir fullorðið fólk sem átt hefur leið um miðborg Reykjavíkur. Ásýnd svæðisins minnir meira á svínastíu en stræti og torg manna; hvarvetna brotnar flöskur og glös, tómar bjórdósir, pappa- og blaðarusl, ælur og hland í bland, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan vill minna veitingamenn og dyraverði á að gestum er óheimilt að bera áfengi, t.d. í glösum og flöskum, út af veitingastöðunum. Alvarlegir andlitsáverkar hafa hlotist af þegar þungum glerbjórglösum hefur verið kastað að fólki, auk þess sem brothljóðum, þegar glös lenda í veggjum og gangstéttum, fylgir mikið ónæði fyrir nálæga íbúa.

Lögreglan hefur bent bæði smásölum áfengis og veitingamönnum á að nota plastglös og selja bjór í plastflöskum að næturlagi um helgar ef svo vildi til að einhverjir gesta reyndu að komast út með hvorutveggja. Til eru plastglös er líkjast glerglösum, en eru bæði miklu mun léttari og brotna ekki svo auðveldlega. Almenn notkun þeirra myndi án efa koma í veg fyrir alvarlega áverka á allmörgum gestum miðborgarinnar að næturlagi um helgar ár hvert - og minnka ónæði fyrir íbúanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert