Vinnsla skýrslu rannsóknarnefndar á áætlun

Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson.
Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson. Ómar Óskarsson

Enn er stefnt að því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið verði tilbúin 1. febrúar næstkomandi. Til stóð að nefndin skilaði skýrslunni 1. nóvember síðastliðinn en fresta varð því þar sem rannsóknin reyndist umfangsmeiri og flóknari en búist var við.

Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir ekki annað í spilunum nú en að skýrslan verði tilbúin á tilsettum tíma.

„En þetta er rosalega mikið verk, við leggjum nótt við dag,“ segir Páll og kveður skýrsluna munu telja um 1.500 blaðsíður. Fleiri en 300 manns hafa komið fyrir nefndina að sögn Páls en hann segist ekki hafa nákvæma tölu á því af hve mörgum hefur verið tekin eiginleg skýrsla. Hann segir alla slíka tölfræði, þar á meðal hve margir og hverjir hafa unnið að skýrslunni, verða birta síðar.

Veita andmælarétt skv. lögum

Samkvæmt lögum um rannsókn á orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða skal rannsóknarnefndin að lokinni gagnaöflun gera „þeim sem ætla má að orðið hafi á mistök eða hafi orðið uppvís að vanrækslu í starfi“ grein fyrir afstöðu hennar til þáttar hans í málinu. Í kjölfarið geti viðkomandi haft uppi andmæli og athugasemdir.

Páll segir að skýrslan verði þó ekki birt þessum aðilum málsins. „Þeir fá skriflega afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún telur þá hafa vanrækt störf sín eða brotið af sér og síðan tækifæri til að koma svörum sínum á framfæri.“

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert