Ekki vitað um afdrif barnanna

Íbúar skoða eyðileggingu í höfuðborg Haítí, Port-au-Prince.
Íbúar skoða eyðileggingu í höfuðborg Haítí, Port-au-Prince. CARLOS BARRIA

SOS Barnaþorpunum hefur ekki tekist að afla upplýsinga um afdrif barna í barnaþorpunum tveimur sem samtökin reka á Haítí og margir Íslendingar styðja.

Í kvöld tókst að ná sambandi við framkvæmdastjóra SOS Barnaþorpanna á Haítí. Hann segir alla starfsmenn landsskrifstofunnar í Port-au-Prince vera heila á húfi, að því er fram kemur í frétt á vef samtakanna.

Framkvæmdastjóranum hefur ekki tekist að ná sambandi við SOS Barnaþorpin tvö þar sem sími virkar ekki og vegir eru lokaðir.

Landsskrifstofan í höfuðborginni skemmdist í skjálftanum og starfsfólkið hefur ekki komist heim til sín. Sumir starfsmannanna hafa frétt af skemmdum á eigin heimilum án þess þó að hafa náð sambandi við sína nánustu.

Upptök skjálftans voru aðeins 10 km frá Port-au-Prince þar sem landsskrifstofan er staðsett. Annað barnaþorpanna og samfélagsmiðstöð SOS eru 15 km fyrir utan borgina.

SOS Barnaþorpin hafa verið með öflugt hjálparstarf fyrir börn á Haítí undanfarin ár. 

Samtökin reka tvö barnaþorp, tvö ungmennaheimili, tvo grunnskóla, einn verknámsskóla og fjórar samfélagsmiðstöðvar á Haítí. um 570 börn og ungmenni eru á framfæri SOS í landinu og um 2600 manns njóta stuðnings Fjölskyldueflingar SOS.

Sjá vef SOS Barnaþorpa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert