Vill takmarka veiðar á grunnslóð

Jón Bjarnason kynnti verkefnið á blaðamannafundi í dag.
Jón Bjarnason kynnti verkefnið á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að setja af stað verkefni þar sem kannaðir verði kostir þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er.

Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu segir, að markmiðið sé að treysta grunnslóðir sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvæna veiði. Í þessu felst að við veiðar og nýtingu verði gætt að verndun sjávarbotnsins og beitt vistvænum veiðiaðferðum.

Ráðuneytið segir, að þar liggi fyrir margvíslegar ályktanir og jafnvel undirskriftalistar um verndun grunnslóðar frá ýmsum aðilum og sveitarfélögum út um land allt. Séu þær með ýmsu móti en flestar gangi út á að ákveðin svæði eða heilu firðirnir verði verndaðir fyrir afkastamiklum veiðarfærum sem geta skaðað umhverfið. Jafnvel hafi verið sett fram svo róttæk sjónarmið að lagt sé til að allt svæðið umhverfis landið innan 3-4 sjómílna verði verndað með þessum hætti.

„Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka er tiltekið að kanna skuli takmörkun á veiðum afkastamikilla skipa á grunnslóð og inni á fjörðum. Markmiðið er að treysta veiðar á þeim slóðum fyrir smærri báta og umhverfisvæna veiði. Í ráðuneytinu berast okkur stöðugt yfirlýsingar og ályktanir víða að af landinu frá þeim vilja loka víkum og fjörðum fyrir veiðum, þannig að þessi umræða er mjög sterk,“ sagði Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á blaðamannafundi í dag.

Ráðherra hefur falið Guðjóni Arnari Kristinssyni að kann möguleika þess að takmarka veiðar á grunnslóðini og ef vill verði þá sérstökum starfshóp falin frekari úrvinnsla málsins. Skoðað verður sérstaklega hvernig önnur ríki haga veiðum á grunnslóð og hvaða tækjum þau beita til veiðistjórnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert