Minnsta sala á lambakjöti sem sögur fara af

Meira seldist af svínakjöti og kjúklingum í fyrra en af …
Meira seldist af svínakjöti og kjúklingum í fyrra en af lambakjöti. Árni Sæberg

Sala á lambakjöti á síðasta ári er sú minnsta sem mælst hefur síðan farið var að skrá sölu á kjöti með kerfisbundnum hætti í kringum 1980. Salan nam 6.261 tonn sem er 16,3% samdráttur milli ára.

Sala á öllu kjöti dróst saman á síðasta ári nema nautakjöti. Sala á kjöti dróst saman um samtals 6,4% í fyrra. Rekja má þennan samdrátt til þess að landsmönnum fækkaði á síðasta ári, en auk þess má gera ráð fyrir að fólk hafi reynt að spara í matarinnkaupum.

Lambakjöt hefur lengst af verið mest selda kjöt á Íslandi. Fyrir um tveimur árum fór sala á kjúklingum upp fyrir lambakjötið og nú er svo komið að sala á svínakjöti er líka orðin meiri en á lambakjöti. Á síðasta ári var lambakjöt því þriðja mest selda kjöttegund á Íslandi.

Til að bregðast við minni sölu hafa bændur aukið útflutning á lambakjöti. Flutt voru út 2.393 tonn af kindakjöti í fyrra, samanborið við 1.491 tonn 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert