,,Mikilvægt að háskólar á Íslandi snúi bökum saman"

Svafa Grönfeldt lauk útskriftarathöfninni með sinni síðustu útskriftarræðu við HR.
Svafa Grönfeldt lauk útskriftarathöfninni með sinni síðustu útskriftarræðu við HR. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tímamót  voru í  sögu  Háskólans í Reykjavík í dag þegar dr. Ari Kristinn Jónsson  tók við embætti rektors af dr. Svöfu Grönfeldt sem gegnt hefur embættinu  í  þrjú ár.  Ari  Kristinn er þriðji rektorinn í sögu skólans. Við útskriftarathöfn í HR í dag þakkaði hann Svöfu fyrir starf sitt við skólann og sagði það mikið tilhlökkunarefni að takast á við starf rektors.

Hann sagði að HR hefði löngum markað sér þá stefnu að sinna þörfum atvinnulífsins en í dag væru mikil tækifæri til að efla þessa tengingu til muna. Það gerðist með því að tengja starf þeirra í háskólanum ennþá betur atvinnulífinu og samfélaginu, hvort sem það er gegnum nemendaverkefni, kennslu, rannsóknir, nýsköpun, greiningu, símenntun, þjálfun eða hvað annað. En um leið sé þörf á að atvinnulíf og samfélag leiti til háskóla með verkefni, fyrirspurnir, menntunarþörf og fleira svo úr verði hringrás sem stóreykur menntun, þekkingu, samkeppnishæfni og nýsköpun á Íslandi.

Hann bað útskriftarnema að hugsa ekki um útskriftina sem endalok þess að læra, þó það kunni að hljóma freistandi eftir strembinn lærdóm undanfarinna ára. Samfélag, tækni og umhverfi okkar breytist hratt og því sé það öllum nauðsynlegt að viðhalda stöðugt og endurnýja þekkingu sína. „Þverfaglegt nám, hvort sem það er í kjarna námsins, samvali námsbrauta, eða framhaldsnámi á nýjum fagsviðum, verður því eitt af okkar mikilvægustu viðfangsefnum í framtíðinni, og ég býð þeim sem hér útskrifast að taka þátt í því með okkur.“

Hann sagði tímana hafa breyst töluvert síðan útskriftarnemendurnir hófu nám við HR. Vel menntað fólk sé hinsvegar alltaf eftirsótt. "En á tímum eins og í dag eru aðstæður líka einstakar til þess að skapa sér ný tækifæri með því að hrinda af stað nýjum hugmyndum, fyrirtækjum, lausnum og aðferðum, og ég er þess fullviss að þið hafði nú fengið það veganesti sem þið þurfið til þess. Staðreyndin er sú að menntun og nýsköpun eru undirstaða endurreisnar á krepputímum - það hefur verið margsannað, hér heima á Íslandi sem og í öðrum löndum nær og fjær. Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að háskólar á Íslandi snúi bökum saman og vinni sem einn að því að standa vörð um menntun og nýsköpun á Íslandi. Það er einlæg trú mín að öflugt samstarf háskólanna geti eflt land og þjóð til muna í sköpun nýrra tækifæra og fjölbreyttara atvinnulífs með því að tryggja hágæða menntun, öflugar rannsóknir og kraftmikla nýsköpun í samvinnu við stjórnvöld, samfélag og atvinnulíf."

Alls voru 235 nemendur brautskráðir frá skólanum; 1 með doktorsgráðu, 59 með meistaragráðu, 134 með bakkalárgráðu og 41 með diplómagráðu. Flestir útskriftarnemanna eru úr viðskiptadeild eða 91. 56 nemendur útskrifuðust með próf úr tækni- og verkfræðideild, 33 nemendur útskrifuðust úr kennslufræði- og lýðheilsudeild, 32 úr lagadeild og 23 frá tölvunarfræðideild. Kynjahlutföll hinna brautskráðu eru mjög jöfn, 120 konur og 115 karlar. Elsti útskriftarneminn að þessu sinni er 68 ára og útskrifast hann með diplómagráðu í stærðfræði frá kennslufræði- og lýðheilsudeild.

Ari Kristinn Jónsson ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Ari Kristinn Jónsson ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra. mbl.is/Valdís Thor
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert