Talsverð andstaða við Húnavallaleið

Frá Blönduósi
Frá Blönduósi

Góð mæting var á íbúafund í Húnavatnshreppi í gærkvöldi um tillögur um aðalskipulag hreppsins 2010-2022. Fulltrúi Vegagerðarinnar kynnti tillögu um nýjan stofnveg, svonefnda Húnavallaleið, sem mætt hefur töluverðri andspyrnu í hreppnum.

Jens P. Jensen, sveitarstjóri Húnavatnshrepps, segir að um 50 manns hafi mætt á fundinn og samþykkt hafi verið tillaga um að beina því til sveitarstjórnar að hún hafni því að setja Húnavallaleiðina inn á aðalskipulagið.  Tillagan hafi verið samþykkt með ellefu atkvæðum gegn þremur. Margir tóku því ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

„Samkvæmt tillögunni á vegurinn að fara yfir nokkrar jarðir og landeigendur eru frekar á móti þessu,“ segir Jens. „Svo finnst mönnum almennt hér brýnna að laga þá vegi sem eru hér fyrir í sveitarfélaginu.“

Tillaga Vegagerðarinnar um flutning á þjóðvegi 1 frá Blönduósi hefur einnig mætt andstöðu þar. Andstæðingar tillögunnar telja hana m.a. vega verulega að ferðaþjónustu á Blönduósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert