Lausn á skuldavanda forsenda sáttar

mbl.is/Ómar

„Það að komið verði til móts við skuldavanda heimilanna sé forsenda þess að sátt geti skapast hér í samfélaginu,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðu utan dagskrá um stöðu fjáramála heimilanna. Hún óskaði eftir svörum frá félagsmálaráðherra um hvaða úrræði séu í farvatninu og hvenær þeirra sé að vænta.

Unnur sagði ljóst að verði ekki hið fyrsta gripið til aðgerða þá muni endurreisnin landsins dragast enn á langinn. Sagði hún þegar fram komin að úrræði skuldara væru ekki fullnægjandi og lög um skuldaaðlögun frá því í haust alls ekki gallalaus. Tók hún dæmi af fjölskyldu sem var ráðlagt af bæði starfsmönnum forsætisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að sækja sér aðstoð hjá viðskiptabanka sínum, en þaðan væri enga aðstoð að fá. Þessi fjölskylda væri með unglinga á sínu framfæri.

„Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því að lausnin verði þverpólitísk. Annað væri ekki boðlegt íslensku þjóðinni,“ sagði Unnur. Minnti hún á að forsætisráðherra hefði boðað frekari úrræði sem nú væri unnið að innan dómsmálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins og vildi vita hvers efnis þessi úrræði væru.

Styrkja þarf réttarstöðu skuldara

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, þakkaði fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessum flókna vanda. „Það er auðvitað verkefni okkar allra að takast á við þær flóknu aðstæður sem upp eru komnar. Með samþykkt laganna í haust náðist samkomulag um grundvallar prinsipp, þ.e. að það ætti ekki að vera hlutverk ríkisins að greiða niður töpuð lán bankanna, heldur ættu bankarnir að bera afskriftir af óskynsamlegum lánum. Það er hlutverk bankakerfisins að axla byrðarnar að aðlögun skuldastöðunnar að greiðslugetu og veðrými eigna,“ sagði Árni Páll og tók fram að vissulega hafa tekið tíma að koma þessu kerfi á.

„Við höfum áratugalanga reynslu af bankakerfi sem ekki hefur haft að markmiði að þjónusta fólk heldur hundelta það. Löggjöfin styður þetta sjónarmið. Við lögfræðingar höfum líka verið aldir upp við að það væri glæpur að borga ekki.“

Árni Páll sagðist telja að allt horfði nú til skárri vegar, en hins vegar væri nauðsynlegt að styrkja frekar réttarstöðu skuldara, styrkja samningsstöðu þeirra í viðræðum við bankana sem myndi setja aukna pressu á bankana að semja í stað þess að draga málið í von um að þeir gætu þannig hámarkað hagnað sinn. Árni Páll sagði einnig nauðsynlegt að styrkja réttarstöðu skuldara við nauðungaruppboð. Sagðist hann sannfærður um að það hefði verið rétt ákvörðun að setja ábyrgðina af afskriftum á hendur bankanna og tók dæmi af nágrannalöndum okkar þar sem afskriftirnar hefðu lent á ríkinu með tilheyrandi skattahækkunum.

Margskyns lausnir þegar verið kynntar 

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, þingmaður Framsóknar, minnti á þau úrræði sem Framsóknarflokkurinn lagði til á sínum tíma um leiðréttingu lána. Sagði hann alltof lítið hafa gert fyrir skuldara á því ári sem liðið væri frá því Framsóknarþingmenn settu fram sína hugmynd. Gagnrýndi hann það að menn hefðu gert lítið úr hugmynd Framsóknarmanna um leiðréttingu lána.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, minnti á að stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir margs kyns lausnum á umliðnum mánuðum sem nýtast myndu skuldsettum heimilum. Sagði hann ljóst að margir hefðu enn ekki getað nýtt sér þegar fram komin úrræði til hlítar og því þyrfti að halda áfram að finna fleiri lausnir.

Tók hann undir með félagsmálaráðherra að mikilvægt væri að bæta réttarstöðu skuldara. Nefndi hann í því samhengi frumvarp VG um hópmálsókn sem lagt verður fram á ný á þingi á næstunni. Einnig sagðist hann vilja láta afnema verðtrygginguna af fasteignalánum.

Dapurleg umræða

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði umræðuna á þingi dapurlega. Benti hann á að þau úrræði sem meirihlutinn hefði komið á hefði lítið sem ekkert nýst almenningi í landinu. Frumvarpið gagnaðist fyrst og fremst þeim sem skulduðu hundruðir milljóna í verðlitlum hlutabréfum en kæmi að litlum notum fyrir heimilin í landinu. „Það er fullreynt að þetta þing mun ekkert gera sem gagnast mun heimilunum í landinu. Hvað er þá til ráða. Það þarf nýja ríkisstjórn.“

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir það með félagsmálaráðherra að nokkuð hafi hallað á skuldara í landinu. Sagði hún menn ekki hafa tíma til að bíða eftir breyttu viðhorfi bankanna til skuldara. „Því vil ég vita hvernig ráðherra ætlar að bregðast við stöðunni eins og hún er núna, þegar ljóst er að von er á fleiri uppsögnum um komandi mánaðamót og örvænting fólks fer sívaxandi.“ Minnti hún á að stjórnarandstaðan hefði kallað eftir aukinni samvinnu stjórnarliða og stjórnarandstöðunnar til þess að finna lausnir fyrir skuldsett heimili. „Ég óttast að örvænting íslenska heimila verði þannig að við komum til með að eiga miklu erfiðara með að komast úr þessum vanda.“

Ljóst að lífskjör myndu skerðast verulega

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, minnti á að rík áhersla hefði í haust verið lögð á að vernda hagsmuni skuldara og því hefði verið komið á eftirlitsnefnd sem hefði það að hlutverki að fylgjast með því að jafnræðis væri gætt milli skuldara. Minnti hún á að nefndin ætti að skila af sér fljótlega.

„Með hruni fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins var ljóst að hér yrði verulega skert lífskjör. Með markvissum aðgerðum mun ástandið batna ár frá ári. Flestir munu komast í gegnum þetta tímabil af eigin rammleik, en okkur ber skylda til þess að tryggja að þeim sem það geta ekki verði hjálpað.“

Almenningur sér enn ekki réttlæti

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gerði réttlæti að umtalsefni og sagði ljóst að fólk missti greiðslugetuna ef það sæi ekki tilgang með því að standa í skilum. Sagði hún kerfishrunið hafa falið í sér algjöran forsendubrest. Sagði hún ljóst að það yrði að koma á leiðréttingu á húsnæðislánum, sérstaklega hjá þeim sem tekið hefðu erlend húsnæðislán sem hefðu stökkbreyst en einnig hjá þeim sem keypt hefðu húsnæði eftir 2004. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert