Tækifæri fyrir stjórnvöld

Höskuldur Þórhallsson, varaformaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, varaformaður Framsóknarflokksins.

„Ég held að það sé einmitt tækifæri núna til að hamra járnið og vona að íslensk stjórnvöld fylgi þessu eftir,“ segir Höskuldur Þórhallsson, varaformaður Framsóknarflokksins, um stefnubreytingu norskra stjórnvalda í Icesave-málinu. Höskuldur fagnar breytingunni sem framsókn hafi lagt grunninn að.

„Ég tel að tíðindin séu jákvæð og það er ánægjulegt að það sem við lögðum grunninn að með ferð okkar til Noregs nú í haust skuli vera orðið að veruleika. Við mátum það þannig að það væri vilji hjá norskum þingmönnum að lána og standa með Íslendingum óháð Icesave og lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við sögðum hins vegar að það þyrfti að koma einhvers konar formleg beiðni frá íslenskum stjórnvöldum og svo virðist sem synjun forsetans og ef til vill áhugi hjá Vinstri grænum hafi hjálpað til. Þannig að ég held að þetta sé mjög jákvætt skref.“

Tali fyrir málstað Íslands

– Eiga stjórnvöld nú að snúa sér til hinna Norðurlandanna?

„Já, að sjálfsögðu. Ég held að það hjálpi bara að menn tali fyrir málefnum Íslands og útskýri okkar stöðu. Við eigum góðan málstað að verja og allir sem fá ýtarlega útskýringu á stöðu mála átta sig á því að við höfum síður en svo verið ósanngjarnir í okkar viðræðum við Breta og Hollendinga.

Ég held að það sé einmitt tækifæri núna til að hamra járnið og vona að íslensk stjórnvöld fylgi þessu eftir,“ segir Höskuldur Þórhallsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert