„Þetta var ekkert smá sárt“

Kristín með litlu dótturina Sögu Oleu.
Kristín með litlu dótturina Sögu Oleu. Úr einkasafni

Íslensk kona, Kristín Lund-Hammeren, varð fyrir þeirri hræðilegu reynslu að gangast ódeyfð undir keisaraskurð. Það gerðist á Østfold sjúkrahúsinu í Fredrikstad í Noregi 21. janúar s.l. Kristín segist ekki getað óskað versta óvini sínum að ganga í gegnum aðrar eins kvalir.

Kristín er fædd og uppalin á Patreksfirði og hét Kristín Áslaug Lund áður en hún giftist Norðmanninum Ole-Ronny Hammeren. Kristín flutti til Noregs í janúar 1999. Þau Ole-Ronny eiga fjórar dætur. Tvíburarnir Brynja Marie og Embla Edvarda eru fjögurra ára, Tuva Margret er tveggja ára og 21. janúar síðastliðinn fæddist Saga Olea. 

Allar dætur Kristínar hafa verið teknar með keisaraskurði. Þegar hún eignaðist tvíburana í janúar 2006 var annað barnið sitjandi og hitt lá ofan á því. Það var því ekki um að ræða að snúa sitjandi barninu og voru þau tekin með keisaraskurði. 

„Hinar stelpurnar voru teknar á sjúkrahúsinu í Tønsberg. Þetta er í fyrsta sinn sem ég var á sjúkrahúsinu í Fredrikstad,“ sagði Kristín. Hún taldi sig vita af fyrri reynslu hvernig keisaraskurður gengi fyrir sig. 

Öðruvísi en fyrri mænudeyfingar

„Maður fær mænudeyfingu. Áður varð ég eins og glóðheit að innan, hitnaði meir og meir alveg niður í tær. Svo eins og dofnaði það í burtu og ég fann ekkert lengur fyrir tánum, hnjánum eða neinu.

Núna var bara eins og nálastungur í tánum, eins og þegar deyfing er að fara. Ég gat hreyft tærnar og allt saman og var aldrei meira deyfð en það. Þá spurði ég hvort ég gæti fengið eina sprautu í viðbót.

Það var tjald fyrir framan andlitið á mér. Þegar læknirinn kleip í magann á mér hrópaði ég upp: Ertu að klípa mig með töng? Mér finnst þú vera að klípa með töng en ekki með puttunum.  

Hann var svolítið hissa að ég skyldi geta fundið þetta, því hann var að klípa mig með töng. Ég var enn að hreyfa tærnar og bað um meiri deyfingu. Þeir sögðu að það væri ekki hægt og þeir myndu bíða í fimm mínútur,“ sagði Kristín.

Hún sagði að læknarnir hafi ákveðið að skera og sagt að  hún gæti fengið hláturgas, sem væri verkjastillandi.

Öskraði af lífs- og sálarkröftum í gegnum alla aðgerðina

„Ég fæ innilokunarkennd ef eitthvað er sett fyrir andlitið á mér. Það var ekki betra þegar hann skellti grímunni á mig. Maðurinn minn sat við hliðina á mér og hélt í hendina á mér. Hann heyrði öskrin í mér en gat ekki greint hvað ég var að segja. Þeir heyrðu það ekki heldur. 

Mér fannst furðulegt að þeir skyldu bara halda áfram að skera þótt ég öskraði af lífs- og sálarkröftum í gegnum alla aðgerðina.“

Kristín sagðist vera hrædd við sprautur, hnífa og annað þess háttar. Hún fæddist á eldhússgólfinu heima hjá sér og hafði aldrei legið á sjúkrahúsi fyrr en börnin komu í heiminn. Hún sagðist ekki hafa hugsað mikið út í það þangað til nú hvað gerðist við keisaraskurð.

„Ég vissi að ég var skorin, saumuð og fékk barnið. Mér fannst nóg að vita það,“ sagði Kristín. „Núna fann ég þegar hann skar í mig. Ég vissi það ekki fyrr en nú að þeir nota skæri á mann - á sjálft móðurlífið. Ég fann þegar hann var að klippa mig.

Þeir notuðu sárahaka til að opna það meir og meir. Ég fann þegar verið var að spenna það upp til að opna legið meir og meir til að ná henni út.“

Barnið fór að öskra í móðurkviði

Kristín telur að þessi þolraun hafi einnig haft áhrif á litlu dótturina Sögu Oleu. 

„Í hin skiptin hafa börnin öskrað eftir að þau voru komin út en hún öskraði á leiðinni út. Hún var ekki komin út úr mér þegar hún var byrjuð að öskra og gleypti svo mikið legvatn að hún kastaði svo að segja stanslaust upp fyrsta sólarhringinn. Hún hefur því opnað munninn ansi mikið áður en þeir náðu henni út,“ sagði Kristín.

Þegar Saga Olea var komin út fékk Kristín rétt að sjá hana áður en farið var út með þá litlu. Ole-Ronny fór með litlu dótturinni út úr fæðingarstofunni. 

„Þegar hann var kominn þó nokkuð út eftir ganginu heyrði hann þvílíkt öskur í mér. Þá ætluðu þeir að taka fylgjuna. Það var eins og sett væri ryksuga inn í mig og þetta bara sogið út.  Ég öskraði því mér brá svo og þetta var ekkert smá sárt,“ sagði Kristín.

„Þeir sáu þá að svona gat mér ekki liðið lengur og þá var ég svæfð á meðan þeir tóku fylgjuna og heftuðu mig saman aftur.“

Kristín kveðst hafa verið öll blá og marin eftir aðgerðina. Maðurinn hennar taldi á henni a.m.k. fjórtán marbletti. Þeir eru á bakinu, síðunum og báðum handleggjum. Kristín kennir um harkalegri meðhöndlun á spítalanum. Þennan dag voru gerðir sex keisaraskurðir á sjúkrahúsinu og hún var önnur í röðinni.

Kristín missti rúmlega líter af blóði í aðgerðinni og meira en hálfan líter til viðbótar á gjörgæslunni en þar lá hún í níu tíma.   „Þegar ég var send heim var blóðprósentan 8,6 en hún á að vera 14. Þeir gefa vanalega blóð ef hún er 8. Ég var alveg á mörkunum.“

Eins og verstu martraðir - og ekki hægt að vakna

Kristín sagði að það sem hún lenti í sé eins og að upplifa sínar verstu martraðir og það glaðvakandi. Það sé ekki hægt að vakna upp frá þessu. „Þú ert gjörsamlega hjálparlaus og kemst ekki í burtu. Það er verið að hamast á þér með hníf og skærum og verið að opna þig.

Hefur þú séð myndina Alien með Sigourney Weaver þegar höfuðið á geimveruafkvæminu kemur út úr henni,“ spurði Kristín. „Manni finnst maður vera að upplifa eitthvað því um líkt, jafn ógeðslegt og óraunsætt og það nú er. 

Ég beið alltaf eftir því að það liði yfir mig. Ég hugsaði að ég gæti ekki upplifað nema ákveðið mikinn sársauka. Svo hlyti að líða yfir mig. En það gerðist ekki. Ég hef ansi háan verkjaþröskuld, því miður.“

Kristín hefur hvorki fengið afsökunarbeiðni né skýringar frá sjúkrahúsinu. Það segist ekki tjá sig um einstök tilvik. Öllum sé boðin svæfing og þeim þyki leitt að hún skuli hafa upplifað þetta svona en þeir taki enga ábyrgð á því að þetta hafi gerst.

„Þegar ég lá á gjörgæslunni kom skurðlæknirinn og settist á rúmið og talaði við mig. Ég var svolítið utan við mig og náði ekki öllu sem hann sagði. Þá var hann eitthvað að tala um að ég þyrfti að einblína á það jákvæða. Það var að ég hefði náð að sjá barnið mitt og heyra hana öskra. Bara gleyma hinu.

Vissulega náði ég að heyra barnið öskra og vita að það var lifandi. En hefði ekki verið jákvæðara að fá að sofa í gegnum þetta og vakna á gjörgæslunni og fá hana þá í hendurnar? 

Þegar hinar komu var komið með þær til mín, upp að kinninni á mér. Ég fékk að kyssa þær á kollinn, strjúka vangann á þeim og telja tær og fingur. Enginn sársauki! Það er jákvæð upplifun.

Nú þurfti ég að öskra mig í gegnum þetta og sjá hana svona meter frá mér áður en stokkið var út með hana. Mér finnst það ekki svo jákvæð lífsreynsla.“

Ætlar ekki aftur á spítala

Kristín segir að maðurinn hennar hafi reynt að tala við svæfingarlækninn en hann sagðist ekki mega vera að því. Þau hafa heyrt að fleiri hafi lent í því sama á þessu sjúkrahúsi. Engir þeirra hafa þó komið fram. Þau ákváðu því að segja Halden Arbeiderblad sögu sína og nú fréttavef Morgunblaðsins. 

Nú þremur vikum eftir fæðinguna er Kristín enn máttfarin og blóðlítil. „Maðurinn minn segist stundum vakna við að ég sé öskrandi. Mig hlýtur að dreyma þetta þó ég reyni að útiloka þetta.

Ég vil alls ekki fara aftur inn á sjúkrahús. Sama hvað kemur fyrir. Ég held að ég treysti læknum mun minna nú en ég gerði áður. Ég hélt að læknar vildu bæta heilsu og líðan, en að geta haldið áfram að klippa og skera öskrandi mannesku - ég veit ekki hvað svoleiðis fólk er að gera í þessu starfi.“ 

Tvíburarnir Brynja Marie og Embla Edvarda eru fjögurra ára, Tuva …
Tvíburarnir Brynja Marie og Embla Edvarda eru fjögurra ára, Tuva Margret er tveggja ára og 21. janúar síðastliðinn fæddist Saga Olea. Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert