Reyndu að stöðva farþegaflugvél

Héraðsdómur  Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn, annan í 2 mánaða fangelsi og hinn í 45 daga skilorðsbundið fangelsi, fyrir að klifra yfir girðingu við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli og hlaupa út á flugvallarsvæðið að flugvél sem þar var að undirbúa flugtak. Mennirnir sögðust hafa ætlað að reyna að koma í veg fyrir að Kenýamaður, sem vísað var úr landi, yrði sendur heim.

Þetta gerðist snemma að morgni í júlí árið 2008. Mennirnir tveir komust yfir girðingu á flugvallarsvæðinu þar sem margar farþegaþotur að búa sig til brottfarar. Verið var að ræsa hreyfla einnar af þessum flugvélum þegar mennirnir hlupu fram með henni  í nokkurri fjarlægð og fram fyrir hana.  Flugmenn á vélinni hættu við að aka vélinni af stað þegar þeir sáu til mannanna og kemur fram í dómnum, að nokkur töf hafi orðið á umferð um völlinn af þessum sökum. 

Mennirnir báru það fyrir sig í málinu að þeir hafi farið inn á flugvallarsvæðið í krafti borgaralegs réttar og skyldu, enda hafi þeir með þessu verið að reyna að koma í veg fyrir að lög og mannréttindi væru brotin á Kenýamanninum Paul Ramses og fjölskyldu hans með því að flytja hann úr landi til Ítalíu. Sögðust þeir hafa tekið þá ákvörðun að reyna að stöðva flugvélina, sem þeir töldu að Ramses væri í og koma þannig í veg fyrir að hún gæti flogið með hann brott af landinu. 

Héraðsdómur segir, að jafnvel þótt fallist væri á það að með brottvísuninni hefðu verið brotin landslög eða alþjóðlegir samningar íslenska ríkisins á Ramses og fjölskyldu hans, sem reyndar hafi ekki verið sýnt fram á í þessu máli, geti það ekki leitt til refsileysis fyrir mennina.

Annar þeirra, sem er á þrítugsaldri, hafði þrisvar verið dæmdur fyrir brot á lögreglulögum með því að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu og hlaut hann því þyngri dóm. Hinn maðurinn, sem er á fertugsaldri, hafði verið dæmdur fyrir lagabrot áður. 

Þess má geta að Ramses fékk að koma til Íslands aftur í ágúst þetta ár. 

Horft yfir Keflavíkurflugvöll.
Horft yfir Keflavíkurflugvöll. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert