Fær ekki bætur vegna vélsleðaslyss

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Hæstiréttur snéri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem hafði dæmt eiganda vélsleða skaðabótaskyldan vegna slyss, sem 17 ára stúlka lenti í árið 2002. Hæstiréttur taldi að sleðaeigandanum hefði ekki borið skylda til að sjá til þess að stúlkan notaði hjálm á sleðanum.

Stúlkan féll af vélsleða, sem hún missti stjórn á þegar hún ók niður brekku við austanvert Hafravatn. Stúlkan var ekki með hjálm á höfði og hlaut hún alvarlega höfuðáverka. Var varanleg örorka hennar metin 20% og hún var óvinnufær   í sex mánuði eftir slysið.

Héraðsdómur taldi, að eiganda vélsleðans hafi borið skylda að sjá til þess að öryggisbúnaður væri fyrir hendi og notaður. Var eigandinn dæmdur til að greiða stúlkunni 8,2 milljónir króna í bætur. Fram kom að sleðinn var bæði óskráður og ótryggður.

Hæstiréttur taldi hins vegar, að eigandanum hefði ekki borið að leiðbeina stúlkunni um akstur sleðans eða sjá til þess að hún notaði hlífðarhjálm, enda hefði hún verið 17 ára þegar slysið varð og hafði að eigin sögn nokkrum sinnum áður ekið vélsleða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert