Stórþjófar handteknir

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mats.is

Mikið magn af þýfi, þar á meðal verkfærum og hjólbörðum fannst í bílskúr í Þorlákshöfn eftir að lögreglan á Selfossi handtók í gær tvo karlmenn vegna gruns um að þeir hefðu þýfi í fórum sínum.

Lögreglan segir, að eftir nokkra rannsóknarvinnu hafi verið ákveðið að gera húsleit í íbúðarhúsi í Þorlákshöfn sem ekki er búið í og er á forræði íbúðarlánasjóðs.  Í bílskúr hússins var vélsleðakerra full af stórum jeppahjólbörðum. Þar var einnig mikið magn af alls konar verkfærum og  hjólbörðum. 

Í kjölfarið voru mennirnir tveir handteknir í húsi í Þorlákshöfn.  Við nánari skoðun kom í ljós að bíll, sem þeir voru með til umráða, var með skráningarmerkjum sem hafði verið stolið af sams konar bifreið.  Hald var lagt á hið meinta þýfi. 

Mennirnir voru yfirheyrðir í gærkvöldi og aftur í morgun.  Við yfirheyrslu viðurkenndu þeir að hafa stolið hjólbörðunum og verkfærum af höfuðborgarsvæðinu.  Lögreglan segir, að um hafi verið að ræða  dýr gæðaverkfari.  Ætla megi að verðmæti þýfisins, sem hald var lagt á, sé um fjórar milljónir króna. 

Hluti þýfisins er komið til skila og segir lögreglan, að það hafi hjálpað mikið l að eigandi verkfæranna hafði merkt hvert stykki og var með lista yfir þau öll. 

Mennirnir voru látnir lausir um hádegi í dag.  Talsverð vinna hefur verið lögð í  rannsóknina en stefnt er að því að málið verði að mestu upplýst í næstu viku.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert