Segir formannakreppu ríkja

Benedikt Sigurðarson
Benedikt Sigurðarson mbl.is

Benedikt Sigurðarson, Samfylkingarmaður á Akureyri, sagði í Silfri Egils í dag að formannakreppa ríkti í íslensku stjórnmálaflokkunum. Taldi hann að bæði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Steingrímu J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, ættu að fara frá og hleypa öðrum að. Benedikt segir að formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi ekki staðið undir væntingum.

Meðal gesta Egils Helgasonar í Silfrinu í dag eru Halla Gunnarsdóttir, sem Egill sagði tilheyra órólegu deildinni í VG, Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og Grímur Atlason, sveitarstjóri.

Sveinn Andri gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að koma ekki til stuðnings við atvinnulausa á Suðurnesjum meðal annars með því að samþykkja starfsemi hollensks fyrirtækis sem hefur áhuga á að koma með óvopnaðar herflugvélar hingað. Hann segir að það skipti öllu máli að sem flestir séu í vinnu. Eitthvað sem hann segir að íbúar í hverfi 101 geri sér ekki alltaf grein fyrir.

Aðspurð um stöðu ríkisstjórnarinnar sögðu þau Halla og Grímur að engin ríkisstjórn væri vinsæl á tímum eins og þessum. Því kæmi ekki á óvart að fylgi ríkisstjórnarinnar mælist undir 40% líkt og kom fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert