ASÍ lýsir þungum áhyggjum af þróun verðlags

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun verðlags. Verðbólgan mælist nú 8,5% á ársgrundvelli sem er með öllu óviðunandi. Ekki sé að sjá að styrking krónunnar á liðnum mánuðum sé að skila sér til almennings.

Í ályktun, sem miðstjórnin samþykkti í dag, segir að síðustu fjóra mánuði hafi krónan t.d. styrkst um 5% en ekkert í mælingum Hagstofnunnar gefi til kynna að sú styrking sé að skila sér í lækkuðu innflutningsverðlagi. Þá hafi athuganir ASÍ sýnt að verðlagsáhrif vegna falls krónunnar séu þegar komin fram.

„Það með öllu óásættanlegt að fyrirtæki nýti sér þessa stöðu og hækki álagningu sína í þeim miklu þrengingum sem nú ganga yfir. Eigi sátt að ríkja í þjóðfélaginu verða allir að axla hluta af byrðunum. Velti fyrirtækin vanda sínum þannig yfir á almenning mun það einungis leiða af sér hækkaðar launakröfur til að bæta upp skertan kaupmátt. Miðstjórn ASÍ skorar á fyrirtækin að gæta hófs og draga úr álagninu og á opinbera aðila að afturkalla hækkanir á sinni þjónustu," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert