Streyma að gosstöðvunum

Mikil umferð var í Fljótshlíð í gærkvöldi, þar sem vel …
Mikil umferð var í Fljótshlíð í gærkvöldi, þar sem vel sést til gosstöðvanna. Mbl / Sigurður Bogi

Fólk er þegar farið að streyma að gosstöðvunum í Eyjafjallajökli. Lögreglan á Hvolsvelli segir að einhver straumur hafi verið í alla nótt, enda kjósi margir að skoða gosið í myrkri. Nú þegar eru fjórir lögreglubílar á ferð um svæðið, þar af tveir frá ríkislögreglustjóra, en búist er við miklum fjölda ferðalanga í dag.

Lögreglan hefur ekki tölu á hversu margir hafa farið að gosstöðvunum í morgun, en ein vísbending um hinn mikla fjölda er að frá miðnætti hafa 730 bílar farið framhjá Hellu, sem mun vera töluvert mikið meira en gengur og gerist.

Kalt og hvasst

Kalt og hvasst er við gosstöðvarnar. Samkvæmt veðurspá fyrir Fimmvörðuháls, sem veðurfræðingur Veðurstofunnar birti tuttugu mínútum fyrir tíu, eru átta til þrettán metrar á sekúndu í 800 til 1000 metra hæð yfir sjávarmáli og 6 til 14 stiga frost. Bæta muni í vind í dag og verða 10 til 15 m/s er líður á daginn, en um og yfir 20 m/s í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðingi á Veðurstofunni er óbreytt virkni á svæðinu, en jafn gangur var í gosinu í nótt. Á annan tug skjálfta varð í Eyjafjallajökli í nótt, flestir um eitt stig á Richter.

Gönguleiðinni frá Skógum á Fimmvörðuháls var í morgun opnuð göngufólki á ný, en henni var lokað í gær. Lögregla og björgunarsveitarfólk brýnir fyrir þeim sem vilja skoða gosstöðvarnar að klæða sig vel og hafa meðferðis nesti, enda þurfti að aðstoða þó nokkra forvitna ferðalanga í gær sem urðu örmagna á ferð sinni upp Fimmvörðuháls.

Stórbrotin fegurð eldgossins á Fimmvörðuhálsi.
Stórbrotin fegurð eldgossins á Fimmvörðuhálsi. Ragnar Axelsson
Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Eldgos á Fimmvörðuhálsi RAX / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert