Fólki vísað af Bröttufönn

Gamli gígurinn er til vinstri og gýs hæst. Nýja sprungan …
Gamli gígurinn er til vinstri og gýs hæst. Nýja sprungan sést til hægri við hann. Kristinn Garðarsson

Verið er að vísa fólki niður af svæðinu í kringum gosstöðina á Fimmvörðuhálsi en það er í næsta nágrenni við nýja gossprungu sem opnaðist um kl. 19.00 í kvöld. Kristinn Garðarsson, sem er á staðnum, telur að sprungan sé enn að lengjast.

„Við erum að reyna að koma ferðamönnum sem eru nálægt gosstöðinni í burtu,“ sagði Víðir Reynisson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Bæði er um að ræða fólk sem kom að gosstöðinni úr Þórsmörk og eins upp frá Skógum og af Mýrdalsjökli.

„Sprungan er ekki hætt að stækka og við viljum fá fólkið í burtu á meðan við erum að átta okkur á þessu. Þetta er öryggisráðstöfun á meðan þessi breyting er að gerast,“ sagði Víðir.

Hann átti ekki von á því að Þórsmörk yrði rýmd en sagði að fyrsta verkefnið væri að koma fólki niður, bæði göngufólki og eins því sem er á bílum. „Við viljum koma fólki sem lengst frá eldstöðinni á meðan þetta er í gangi,“ sagði Víðir. 

Kristinn Garðarsson sagði að töluvert öskufall sé nú á Fimmvörðuhálsi. Einnig sé hraunið greinilega að renna út í snjó því töluverðir gufustrókar standi upp í loftið.

Norðanátt er á svæðinu og ber hún öskuna suður yfir Fimmvörðuháls. Kristinn sagði að þegar sé tekið að móta fyrir gjallhaugum við nýju sprunguna. Hann sagði að nýja sprungan sé í halla og virtist honum hraunið eiga greiða leið í Hvannárgil. 
Gossprungan virðist enn vera að lengjast.
Gossprungan virðist enn vera að lengjast. Kristinn Garðarsson
Kort/Elín Ester
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert