Bíllinn fundinn mannlaus

Emstrur.
Emstrur. www.mats.is

Honda bifreið fólksins sem leitað hefur verið síðan í nótt fannst fyrir stundu í Hvanngili við Stórusúlur. Bíllinn var mannlaus. Ekki hafa enn fengist upplýsingar um það hversu lengi konan sem fundin er hafi verið á gangi, né hvenær leiðir hennar og hinna tveggja sem leitað er skildu.

Einn karlmaður og tvær konur voru í bílnum. Önnur konan fannst á gangi við Emstruleið, ofan við Einhyrning, um miðjan dag. Hún var tekin um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem hefur verið við leit í dag.

Búið er að kalla út allar björgunarsveitir og beina þeim á svæðið þar sem konan fannst en talið er að ferðafélagar konunnar séu þar líka á gangi. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er búið að kalla út björgunarsveitir á öllu Suðurlandi sem og á höfuðborgarsvæðinu til að leita suðvestur af Hattfelli ofan við Emstrur þar sem konan fannst.

Segir hún allar sveitir kallaðar út í ljósi þess að bíllinn hafi fundist mannlaus og vitað sé að fólkið sé í vanda. Hjá lögreglunni á Hvolsvelli fengust þær upplýsingar að sérstaklega hefði verið óskað eftir hundum til leitar. 

Fólkið var á ferð á páskadagskvöld og ætlaði að skoða gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Ökumaðurinn bað um aðstoð upp úr klukkan tvö í fyrrinótt. Hann var villtur en taldi sig vera innan við Fljótshlíð. 

Um klukkan eitt eftir miðnætti á sunnudag var bílinn kominn á aurana innan við Tröllagjá, sem er innan við Gilsá og á leiðinni að Einhyrningi. Þá gerðu lögregla og björgunarsveitir fimm tíma leit á svæðinu. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var ökumaðurinn í símasambandi við hana alla nóttina en var rammvilltur. Hann taldi sig vera í Fljótshlíð og sá til eldgossins en engin önnur kennileiti. Mikil leit var gerð að bílnum um nóttina.

Um klukkan 6.30 í gærmorgun hringdi ökumaðurinn í lögregluna og afþakkaði aðstoð. Hann var þá búinn að losa bílinn og kvaðst vera kominn á einhvern slóða. Ættingjar fólksins fóru síðan að grennslast fyrir um það um klukkan tvö í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert