Segir aðgerðum stjórnvalda ekki um að kenna

Orsakir bankahrunsins haustið 2008 er ekki að finna í aðgerðum eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar mánuðina fyrir hrun, segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í svari sínu við bréfi sem Rannsóknarnefnd Alþingis sendi honum vegna mögulegrar vanrækslu hans í starfi.

Í bréfi nefndarinnar segir m.a. að til athugunar sé hvort Geir, sem forsætisráðherra, hafi sýnt af sér vanrækslu með því að láta ekki undirbúa aðgerðir í ljósi þess hve alvarlegar upplýsingar formaður bankastjórnar Seðlabankans lét honum í té á fundi í febrúar 2008.

Hefði átt að upplýsa viðskiptaráðherra

Einnig er gagnrýnt að Geir hafi ekki upplýst þáverandi viðskiptaráðherra um stöðu mála, né tjáð honum síðar að til stæði að ríkið tæki að hluta yfir Glitni.

Þá segir í bréfinu að til athugunar sé hvort það teljist vanræksla af hálfu Geirs að málefni bankanna hafi ekki verið tekin reglulega til umræðu í ríkisstjórn, og eins þær skuldbindingar sem voru að hlaðast upp á Tryggingasjóð innistæðueigenda.

Um Icesave-reikningana segir m.a. að nefndin hafi til athugunar hvort telja beri Geir það til vanrækslu að ríkisstjórnin og íslensk eftirlitsyfirvöld hafi ekki samhæft viðbrögð til að greiða fyrir flutningi reikninganna úr útibúum yfir í dótturfélög.

Seðlabankinn hefði sjálfur átt að benda á aðgerðir

Í svarbréfi sínu bendir Geir á að í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, frá 8. maí 2008, hafi bankinn sagt að fjármálakerfið væri í meginatriðum traust, og uppfyllti þær kröfur sem til þess var gert. Þá hafi bankinn sjálfur átt að grípa til aðgerða, eða koma með ábendingar um aðgerðir, ef hann taldi fjármálastöðugleika ógnað.

Til ýmissa aðgerða var gripið vegna slæmra horfa í efnahagsmálum, segir Geir. Meðal annars hafi hann í samstarfi við Seðlabankann unnið að því að afla lánalína í formi skiptasamninga hjá öðrum seðlabönkum. Þá hafi hann unnið að því að Íslendingar yrðu aðilar að endurnýjuðu samkomulagi fjármálaeftirlita, seðlabanka og fjármálaráðuneyta ESB-ríkjanna um samstarf til að  tryggja fjármálalegan stöðugleika.

Formaður Samfylkingar átti að upplýsa viðskiptaráðherra

Um upplýsingagjöf til viðskiptaráðherra segir Geir það vera vel þekkta venju í íslenskum samsteypustjórnum að formenn ríkisstjórnarflokka vinni náið saman og ráði málum til lykta. Þeir beri þá hver fyrir sig ábyrgð á upplýsingastreymi til samflokksmanna sinna.

Þá bendir Geir á að upplýsingar um efnahagsreikninga bankanna lágu opinberlega fyrir og þar með hvaða staða kynni að koma upp ef ríkissjóður freistaði þess að taka á sig allar skuldbindingar þeirra - sem bæði ríkisstjórn og Seðlabanki töldu þó óhugsandi.

Gátu ekki skipað Landsbankanum að flytja Icesave

Geir segir rangt að hann hafi ekki haft frumkvæði að því að fjármálafyrirtæki drægju úr stærð sinni. Þvert á móti hafi hann lagt áherslu á það í samtölum við fjármálafyrirtækin að þau minnkuðu efnahagsreikning sinn.

Þá bendir hann á að eðli málsins samkvæmt hafi það að mestu verið í höndum Landsbankans sjálfs og breska fjármálaeftirlitsins hvort samkomulag næðist um flutning Icesave-reikninganna. Íslenska ríkið hafi ekki haft vald til að knýja einhliða fram niðurstöðu í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert