Lög afnámu ekki sjálfskuldarábyrgð

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt konu og karl til að greiða Sparisjóði Vestmannaeyja 1.024.686 krónur. Um var að ræða sjálfskuldaábyrgð en fólkið hélt því fram að ábyrgð þeirra væri ekki lengur fyrir hendi, s.s. vegna nýlegra breytinga á lögum um ábyrgðamenn. Dómurinn taldi lögin hins vegar ekki afturvirk.

Um er að ræða konu á fimmtugsaldri, 75% öryrkja, sem fékk greiðsluaðlögun á síðasta ári. Hún fékk útgefið skuldabréf upp á eina milljón árið 2006 en lenti strax á því ári í vanskilum með það. Móðir konunnar og bróðir voru ábyrgðarmenn hennar. Sparisjóðurinn höfðaði mál á hendur þeim þegar þau neituðu að greiða.

Móðirin og bróðirinn byggðu mál sitt á því að ábyrgðin sé ekki lengur fyrir hendi, enda krafan fallin niður með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. „Eigi því stefnandi ekki lengur kröfu á hendur [upphaflegum skuldara] enda teljist nauðasamningur kominn á þegar krafa skuldarans um staðfestingu nauðasamnings hefur verið tekin til greina með endanlegri dómsúrlausn, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991.“

Töldu móðirin og bróðirinn málsókninni því ranglega beint að þeim þar sem krafan hafi verið gefin eftir á hendur upphaflegum skuldara og eigi sú eftirgjöf að hafa sömu áhrif á hendur stefndu.

Héraðsdómur vísaði til þess að fyrir gildistöku laga um ábyrgðamenn á síðasta ári hafi Sparisjóðurinn átt lögmæta kröfu á hendur ábyrgðamönnunum, þ.e. móðurinni og bróðurnum vegna skuldabréfsins. Og þó svo að við gildistöku laganna 4. apríl 2009 væru ákvæði sem fela í sér að sjálfskuldaábyrgðin falli niður verði ekki um um það deilt að kröfuréttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og verða ekki skert án bóta með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. 

„Kröfuréttindi stefnanda voru tvímælalaust af þessum toga og af framanskráðu leiðir að ákvæðum 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 32/2009 verður ekki beitt um kröfu stefnanda á hendur stefndu,“ segir í dómnum.

Sama átti við um yfirdráttarheimild

Héraðsdómur Suðurlands kvað jafnframt upp dóm í öðru sambærilegu máli, þ.e. Sparisjóðs Vestmannaeyjar á hendur móðurinni einni vegna sjálfskuldaábyrgðar á yfirdrætti dóttur sinnar upp á 200 þúsund krónur.

Skuld dótturinnar samanstóð af yfirdráttarúttektum, þjónustugjöldum og samningsvöxtum. Hún var gjaldfelld 30. júní sl. En líkt og í hinu málinu var var nauðasamningur dótturinnar staðfestur 15. september sl. og gert ráð fyrir algjörri eftirgjöf samningskrafna.

Sparisjóðurinn sneri sér því að ábyrgðarmönnunum og féllst dómurinn, sem fyrr segir, á kröfur hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert