Gosið ekki að breytast

Séð til Eyjafjallajökuls frá Hvolsvelli með vefmyndavél Mílu. Það glittir …
Séð til Eyjafjallajökuls frá Hvolsvelli með vefmyndavél Mílu. Það glittir í hvítan gosmökkinn gegnum skýin.

Aukinn órói hefur mælst á jarðskjálftamælum við gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli síðustu klukkustundir. Einar Kjartansson jarðeðlisfræðingur segir hins vegar í samtali við mbl.is að um litlar breytingar sé að ræða. „Það er ekkert sem ég myndi túlka í þessu sem segir að gosið sé að breytast.“

Ekki sé um breytingu á kvikustreyminu að ræða heldur sé þetta óregla í samspili goskvikunnar og vatnsins sem komi þegar ís bráðnar.

„Mér finnst að þessi órói hafi verið mjög stöðugur síðan á sunnudagsmorgun. Hann jókst mjög ákveðið þá. Síðan hafa þetta verið minniháttar sveiflur. Þetta minnkaði eitthvað í nótt og svo eykst þetta núna. Þetta er eðlilegur breytileiki,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Óróinn hafi t.a.m. verið breytilegur þegar það gaus á Fimmvörðuhálsi. Þetta hafi ekki ávallt tengst breytingum í sjálfum gígnum. „Þegar hraunið var að renna þar sem var annað hvort jökull eða þykkir skaflar þá komu miklu meiri gufustrókar. Þá jókst óróinn líka. Þannig að sá hluti af óróanum var ekki að koma frá sjálfum gígnum heldur úr hrauninu, þar sem það var að renna,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Hvað gosið í Eyjafjallajökli varðar sé erfiðara að greina á milli þar sem gígurinn og hraunið sé nánast á sama stað.

„Jökullinn heldur að þessu. Hann leyfir hrauninu ekki að komast í neina fjarlægð frá gígnum, í sjálfu sér. Þetta er á mjög litlu svæði og þá renna þessir strókar saman. Maður sér ekki sér strók frá hrauninu og sér strók frá gígunum, eins og maður sá í Fimmvörðuhálsgosinu eiginlega frá byrjun.“

Öskufall suðvestur af eldstöðinni

Að sögn almannavarna spáir Veðurstofan dálitlum líkum á öskufalli suðvestur af eldstöðinni í kvöld, jafnvel að Vestmannaeyjum. Engar líkur á öskufalli suðvestanlands. Á morgun má við öskufalli suður og vestur af eldstöðinni, en berst líklega ekki langt frá eldstöðinni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ flaug í dag yfir eldstöðvarnar með vísindamenn. Þau sögðu gos í einum gíganna, ekkert bendir til aukinnar virkni. Einnig flaug TF-SIF yfir og er hún nýlent á Reykjavíkurflugvelli.

Vefsíða almannvarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert