Mega víkja frá viðbúnaðaráætlun

Þetta kort sýnir spá um öskudreifingu upp í 20 þúsund …
Þetta kort sýnir spá um öskudreifingu upp í 20 þúsund feta hæð kl. 18 í kvöld. Rauða svæðið er með lágri öskumettun en það svarta hárri. flugstodir.is

Flugmálastjórn Íslands hefur gefið samþykki fyrir að Flugstoðir víki frá viðbúnaðaráætlun sem gildir á Norður- Atlanthafssvæði Alþjóða flugmálastofnunarinnar, og varðar flug í innanlandssvæði Íslands á meðan á eldgosi stendur.

Hjördís Guðmundsdóttir sagði þessa breytingu þýða að nú megi gefa flugvél blindflugsheimild inn á svæði sem eru rauðlituð á öskudreifingarkortum sem merkir að þar sé lítil gjóskumettun. Þetta geti verið mikilvægt ef t.d. vindátt breytist. Þá geti Keflavíkurflugvöllur lent innan rauðlitaða svæðisins, í stað þess að vera undir svarta litnum eins og var kl. 18.00 í kvöld.

Flugvélar fengu fyrr í dag að fljúga í sjónflugi um rauðlitaða svæðið, t.d. til og frá Akureyri, en nú geta þær fengið blindflugsheimildir.  Þetta þýðir að hægt er að fljúga að nóttu til um Akureyri þótt svæðið sé rauðlitað á öskukorti.

Fram kemur í tilkynningu frá Flugstoðum, að notuð sé sama aðferðarfræði og notuð er í Evrópusvæðinu. Frá og með rúmlega kl. 18 í dag verði blindflugsheimildir gefnar í gegnum það svæði sem er með lágri öskumettun, þær heimildir eru á ábyrgð flugrekenda sem þurfa á sama tíma að uppfylla stífari skilyrði varðandi viðhald og eftirlit á flugvélum.

Frávikið felst í því að spásvæði gjóskudreifingar er skipt upp í tvo hluta, svæði 1 (svart) og svæði 2 (rautt), miðað við þéttleikaspá, sem gefið er út af upplýsingamiðstöð um gjóskudreifingu, er staðsett er í London.

Svæði 1 auk 15 sjómílna öryggissvæðis umhverfis það, er skilgreint sem „fluglaust svæði” þar sem engin blindflugsheimild er gefin.
Í svæði 2  eru gefnar blindflugsheimildir með sömu aðferðarfræði og beitt er innan evrópusvæðis Alþjóða flugmálastofnunarinnar.

Spásvæðið klukkan 6 í fyrramálið.
Spásvæðið klukkan 6 í fyrramálið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert