Biskup býst við einum hjúskaparlögum

Frá prestastefnu í Vídalínskirkju í kvöld.
Frá prestastefnu í Vídalínskirkju í kvöld. mbl.is/Kristinn

Biskup Íslands sagði í setningarræðu sinni á Prestastefnu í kvöld að við blasi að Alþingi muni samþykkja frumvarp um ein hjúskaparlög, sem lagt hefur verið fyrir þingið. Hann ítrekar að þjóðkirkjan lúti lögum landsins, þótt hann hafi sjálfur litið á það sem skyldu sína að standa vör um gömul og helg gildi.

„Eins og ykkur flestum má vera kunnugt þá hef ég talið skyldu mína að standa vörð um hin gömlu og helgu gildi í þessum efnum. Nú horfist ég í augu við að ríkisstjórn og alþingi munu afgreiða frumvarpið, niðurstaðan blasir við og stór hluti presta mun vera því fylgjandi. Engum blöðum er um að fletta að Þjóðkirkjan lýtur lögum landsins. Ríkið ræður því hver skilgreining hjúskaparins er að lögum. En þetta mál varðar líka kenningu og helgisiði kirkjunnar.

Hjúskaparlög hafa byggt á samhljómi siðar og kirkju, flestra trúarbragða heims og nánast allrar siðmenningar, í samhljómi við þann skilning á hjónabandi sem birtist í orðum Jesú Krists sem rækilega eru tíunduð í guðspjöllunum. Nú er stigið skref sem leysir þennan samskilning sundur. ... Ýmsum finnst rökrétt að löggjafinn leysi kirkjur og trúfélög undan því að prestar og forstöðumenn gegni vígslumannshlutverki. Ég játa það að sjálfur er ég beggja blands í þeim efnum, því hjónavígslan í kirkjunni gegnir sannarlega veigamiklu hlutverki í vitund þjóðarinnar. ...

Verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum þá finnst mér einboðið að við förum þá leið sem Kirkjuþing 2007 samþykkti og staðfest var á Prestastefnu 2008. Samkvæmt því verði í kaflanum Hjónavígsla í Handbók kirkjunnar gefnir valkostir um tilhögun hjónavígslunnar eftir því sem við á karl og kona eða samkynja par. Síðarnefndi valkostur byggi á því  formi sem Prestastefna samþykkti fyrir staðfestingu samvistar.“

Málið verður á dagskrá Prestastefnu á fimmtudag, og vonast biskup til að samræðan fari fram af sanngirni og virðingu. Þá segist hann hafa hugleitt að láta fara fram rafræna könnun meðal presta eftir Prestastefnu um hug þeirra til þeirra kosta sem hann nefnir.

Ræða biskups í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert