Fallast ekki á bann við hvalaviðskiptum

Hvalveiðiskip Hvals hf. í Reykjavíkurhöfn.
Hvalveiðiskip Hvals hf. í Reykjavíkurhöfn.

Íslensk stjórnvöld geta ekki fallist á Alþjóðahvalveiðiráðið kveði á um bann við milliríkjaviðskiptum með hvalaafurðir. Þá segir sjávarútvegsráðuneytið, að þeir kvótar sem lagðir hafa verið til fyrir Ísland í málamiðlunartillögu um hvalveiðar séu langt undir sjálfbærnimörkunum. 

Formaður og varaformaður Alþjóðahvalveiðiráðsins hafa ákveðið að leggja fram tillögu í eigin nafni. Reiknað er með að hún verði tekin fyrir á ársfundi ráðsins í Agadir, Marokkó, í júní n.k. Í tillögunni er að finna málsgrein, sem ríki andstæð hvalveiðum höfðu lagt til, um að aðeins megi nota hvalaafurðir innanlands. Segir sjávarútvegsráðuneytið að slíkt væri í raun bann við milliríkjaviðskiptum og kæmi verst niður á hagsmunum smáríkja með lítinn heimamarkað.

Tillagan felur einnig m.a. í sér kvóta þeirra ríkja sem stundað hafa hvalveiðar og gerir ráð fyrir árlegum kvótum fyrir Ísland á tímabilinu 2011-2020 upp á 80 langreyðar og 80 hrefnur.

„Íslensk stjórnvöld geta ekki fallist á umrætt bann við milliríkjaviðskiptum með hvalaafurðir. Í fyrsta lagi geta Íslendingar sem útflutningsþjóð sjávarafurða ekki fallist á að skorður séu settar á viðskipti með sjávarafurðir sem fengnar eru með sjálfbærum hætti. Í öðru lagi falla viðskipti utan valdsviðs Alþjóðahvalveiðiráðsins og er ráðið því ekki bært til að fjalla um þau. Jafnframt er ljóst að þeir kvótar sem lagðir hafa verið til fyrir Ísland, eru langt undir sjálfbærnimörkunum og er í því sambandi rétt að hafa í huga að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar hljóðar upp á 200 langreyðar og 200 hrefnur á ári," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Þar kemur fram, að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á að ekki verði teknar neinar ákvarðanir á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Agadir nema með almennu samkomulagi aðildarríkja þess, en fram að þessu hafi verið unnið á þeim grundvelli.

„Það þjónar ekki framtíðarhagsmunum ráðsins að freista þess að keyra í gegn ákvarðanir með atkvæðagreiðslu, enda væri það til þess fallið að auka enn á sundrungu meðal aðildarríkja ráðsins og leiða til falls þess," segir ennfremur.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert