Skylda að standa vörð um öryggi starfsmanna

Lögreglumenn við Alþingishúsið
Lögreglumenn við Alþingishúsið mbl.is/Golli

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir í svari til Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, varðandi ákærður vegna atburða í Alþingishúsinu og við það 8. desember 2008, að hún telji að skrifstofustjóri Alþingis hafi verið til þess bær að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort óskað yrði eftir rannsókn á atvikinu. Það sé hans skylda að standa vörð um öryggi starfsmanna Alþingis.

Á morgun verður mál þeirra níu sem ákærðir eru í málinu tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Fólkið er ákært fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu, og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.

Í ákæruskjali er mótmælendum gefið að sök að hafa veist að sex þingvörðum og lögreglumanni með ofbeldi, hótun um ofbeldi og ofríki í þeim tilgangi að komast upp á þingpalla. Einn þingvarða slasaðist sýnu mest; hlaut tognun á hálsi, hálshrygg, brjóst- og lendhrygg og mar á brjóstkassa.

Segir í skriflegu svari Ástu Ragnheiðar sem birt er á vef Alþingis að þegar þingfundur hófst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 8. desember 2008 opnuðu þingverðir bakdyr Alþingishússins til þess að gestir, sem þess óskuðu og fylgdu almennum reglum, kæmust á þingpalla.

Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins.

Sex þingverðir og lögreglumaður, sem var á vakt í þinghúsinu, lentu í átökum við hópinn þegar hann var stöðvaður. Ýmsir þeirra hlutu meiðsl í átökunum sem kunna að vera varanleg.
    

Strax í kjölfarið var farið nákvæmlega yfir myndbandsupptöku sem sýndi hvernig hópurinn þröngvaði sér inn í þinghúsið. Þá áttu aðallögfræðingur Alþingis og forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs samtöl við þingverðina og lögreglumanninn um atvikið.

Myndbandsupptakan sýnir að þingvörður, sem átti að gæta inngangsins, var yfirbugaður til að tryggja að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður inn í húsið. Því mátti ætla að hann væri ekki kominn í friðsamlegum tilgangi.

Af samtölunum við þingverði og lögreglumanninn varð enn fremur ráðið að hópurinn skirrtist ekki við að beita líkamlegu valdi til að komast í tæri við þingmenn sem sátu í þingsalnum á fundi. Það var því mat aðallögfræðings Alþingis að rík ástæða væri til að málið yrði rannsakað af lögreglu með tilliti til þess hvort ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 106. gr. þeirra, hefðu verið brotin. Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar. Áður hafði málið verið borið undir starfsmennina sem hlut áttu að máli.

Sjá svarið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert