Sprengigos er enn mikið

Sprengigos hefur haldist mikið í Eyjafjallajökli og gera má ráð fyrir að yfir 200 tonn komi nú upp úr gígnum á sekúndu hverri. Gjóskufalls hefur gætt á Norðausturlandi, að sögn Veðurstofu Íslands.

Gosmökkurinn hefur verið nokkuð stöðugur í um 7 km hæð skv. veðurratsjá. Stíf sunnan og suðvestanátt yfir eldstöðinni. Nær jörðu var austlægari vindur sem blés áður fallinni ösku til vesturs og norðvesturs.

Tilkynningar um öskufall hafa komið frá Hrauneyjum þar sem bílar urðu svartir vegna öskufallsins, Hæli í Gnúpverjahreppi, Laugum í S-Þingeyjasýslu, Felli í Vopnafirði og í Neskaupstað en á þessum stöðum var um lítilsháttar öskufalla að ræða. Auk þess sást þunn slikja á Sandhólatindi og Bjólfi sem eru fjöll norðan Seyðisfjarðar. Svifryk mældist í Reykjavík um miðjan dag og má rekja það til foks.

Á áttunda tug eldinga hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá miðnætti og fram á miðjan dag. Hátt í 10 á klukkustund fram að hádegi en heldur færri eftir það.

Rennsli við Gígjökul er lítið, líkt og undanfarna daga.

Ekkert hefur sést til gosstöðva í dag. Gosmökkur liggur í um 7 km hæð og leggur til norðausturs. Af umfangi, hæð og lit gosmakkar má ráða að aðstæður séu svipaðar og undanfarna dag. Tíðar eldingar.

Óróinn er nokkuð stöðugur en heldur hefur dregið úr lágtíðninni síðustu daga. Einn jarðskjálfti sem var 1,3 að stærð mældist í nótt og var hann á u.þ.b. 16 km dýpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert