Útkallsmet hjá Gæslunni

Þyrla Landhelgisgæslunnar
Þyrla Landhelgisgæslunnar mynd/Kristín Andersen

Níu útköll voru í gær send frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem hefur að sögn varðstjóra ekki áður gerst en mikið annríki hefur verið síðastliðna sólarhringa vegna strandveiðanna. Alls urðu sex bátar vélarvana víðs vegar um landið,  tveir bátar duttu út úr fjareftirlitskerfum vegna bilunar auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu vegna lítillar flugvélar í vandræðum á leið frá Narsarsuaq á Grænlandi. Lenti hún heilu á höldnu á Reykjavíkurflugvelli kl. 20:20, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.
 
„Hverju atviki þar sem bátar eiga í erfiðleikum eru kallaðir til nærstaddir bátar, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.  Í flestum tilfellum gærdagsins komu nærstaddir bátar fyrst til aðstoðar og tóku björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar síðan við þegar þau komu á vettvang.

Í gær voru um 600 skip í eftirlitskerfum Landhelgisgæslunnar sem er nokkuð minna en verið hefur frá upphafi strandveiðanna en fjöldi þeirra hefur farið allt um í 900 skip og báta í einu á sjó," segir í tilkynningu frá Gæslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert