Offramboð af tómum íbúðum

Nýbyggingar í Úlfarársdal
Nýbyggingar í Úlfarársdal Haraldur Guðjónsson

1.152 óseldar íbúðir á ýmsum byggingastigum standa í dag ónýttar á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt nákvæmri talningu sem Meistarafélag húsasmiða stóð fyrir nú í maímánuði. Taldar voru bæði tilbúnar íbúðir og íbúðir á framkvæmdastigi.

„Þó maður þykist hingað til hafa verið nokkuð nærri því hvað þær eru margar hefur það verið meira og minna áætlun," segir Baldur Þór Baldvinsson formaður félagsins. „Núna fengum við teikningar og götuskrá í hverju bæjarfélagi, fórum í hverfin og gerðum nákvæma talningu."

Langflestar auðar íbúðir standa í Hafnarfirði þar sem rúmlega 200 íbúðir standa tilbúnar, en tómar, á Norðurbakkanum að sögn Baldurs.  Í heildina standa 332 tilbúnar íbúðir tómar á höfuðborgarsvæðinu, 185 eru tilbúnar til innréttingar, 350 eru fokheldar, þar af 133 í Reykjavík. Í 135 tilvikum hefur burðarvirki verið reist og 150 undirstöður hafa verið lagðar. Í Reykjavík eru flestar fokheldar byggingar, eða 133 og þar eru alls 79 byggingar þar sem aðeins burðarvirki hefur verið reist. 23 fullgerðar íbúðir standa tómar í Reykjavík, 16 í Mosfellsbæ, 25 í Kópavogi, 23 í Garðabæ og 245 í Hafnarfirði en á Seltjarnarnesi er engin fullbúin íbúð óseld. 

Baldur segir að Meistarafélag húsasmiða finni fyrir mikilli eftirspurn um leiguhúsnæði. „Og það er nákvæmlega sama sagan hjá fasteignasölum. Við heyrðum frá einni fasteignasölu í gær þar sem koma að meðaltali 10 símhringingar á dag þar sem óskað er eftir leiguíbúðum. Þetta kannski bendir til þess að það sé erfitt með fjármagn, fólk þori ekki að taka lán af því það veit ekki á hvaða kjörum og það er of mikil óvissa sem fylgir því.“

Baldur segir einnig ljóst að of mikið sé af stórum íbúðum. „Á meðan við vorum svona rík þá byggðum við stórt, en það vantar litlu íbúðirnar. Þriggja herbergja íbúðir eða svo fyrir fólk sem er að byrja að búa, það er vöntun á slíkum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert