Samrýmist ekki stefnu listans

Fulltrúar fjögurra flokka hófu vinnu á sunnudag við myndun nýs …
Fulltrúar fjögurra flokka hófu vinnu á sunnudag við myndun nýs meirihluta í Kópavogi. mbl.is/Eggert

Oddviti Lista Kópavogsbúa segir að það samrýmist ekki stefnu framboðsins að standa að ráðningu pólitísks bæjarstjóra í Kópavogi. Viðræður flokkanna fjögurra strönduðu í dag þegar kom að umræðum um skiptingu embætta. Samfylking og VG vilja að ráðinn verði pólitískur bæjarstjóri og mun nafn Guðríðar Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar, einkum vera nefnt.

Fjórir flokkar erum í viðræðum um myndun meirihluta í Kópavogi. Rannveig H. Ásgeirsdóttir, nýkjörinn bæjarfulltrúi Lista Kópavogsbúa, segir að vinna við gerð málefnasamnings hafi gengið vel og sé góð samstaða sé um öll mál.

Í dag hittust oddvitar flokkanna til að ræða skiptingu embætta. Þar höfnuðu fulltrúar Lista Kópavogsbúa tillögum um ráðningu pólitísks bæjarstjóra. Rannveig segir að flokkarnir sem starfað hafi í minnihluta á síðasta kjörtímabili telji að röðin sé nú komin að þeim. Á það geti Listi Kópavogsbúa ekki fallist. 

„Við erum að fara í þessa vinnu á þeim forsendum að við séum að vinna með Kópavogsbúum, með hreint borð og gerum ráð fyrir því að hinir geri það sama,“ segir hún og vekur athygli á því að ráðning faglegs bæjarstjóra hafi verið helsta stefnumál framboðsins. 

Spurð að því hvort viðræðurnar hafi þar með farið út um þúfur segir Rannveig: „Við erum tilbúin til samvinnu en viljum að breytingarnar gangi alla leið.“

Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG, segir að búið sé að lenda málefnavinnunni í öllum meginatriðum. Góð samstaða sé um verkefnin. 

Oddvitar flokkanna hafi hist í dag til að ræða verkaskiptingu og niðurröðun í nefndir. Málið standi þar. Fram hafi komið hugmyndir sem fulltrúarnir hafi rætt í sínu baklandi í kvöld. Fyrirhugað sé að hittast aftur á morgun.

Spurður um kröfu Samfylkingarinnar um bæjarstjórastólinn segist Ólafur Þór ekki upplifa málið þannig að fram hafi komið einhverjar ófrávíkjanlegar kröfur. Allt sé ennþá uppi á borðinu og menn að ræða saman.

Rannveig H. Ásgeirsdóttir, bæjarfulltrúi Lista Kópavogsbúa.
Rannveig H. Ásgeirsdóttir, bæjarfulltrúi Lista Kópavogsbúa. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert