Staðan verst á suðvesturhorninu

Heimili í greiðsluerfiðleikum eru hlutfallslega fleiri í nýjum hverfum höfuðborgarsvæðisins
Heimili í greiðsluerfiðleikum eru hlutfallslega fleiri í nýjum hverfum höfuðborgarsvæðisins mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Heimili í greiðsluerfiðleikum eru hlutfallslega fleiri á Reykjanesi, Suðurlandi og í nýjum hverfum höfuðborgarsvæðisins, sem litu dagsins ljós í uppsveiflunni, en á öðrum landssvæðum. Hlutfallslega færri heimili eru í vanda eftir því sem aldur lántaka hækkar og hjá helmingi heimila í vanda eru allir fjölskyldumeðlimir yngri en 40 ára. Þetta kemur fram í Fjárhagsstöðugleika, nýju riti Seðlabanka Íslands.

„Athyglisvert er að skoða samsetningu hóps heimila í greiðsluvanda. Heimili með gengistryggð lán urðu fyrir mesta áfallinu og ljóst er að þau glíma við mestu erfiðleikana. Rúmlega helmingur heimila í greiðsluvanda er með gengistryggð lán.

Vísbendingar eru um að þriðjungur heimila með gengistryggð íbúða- og/eða bílalán sé á mörkum þess að ná endum saman. Til samanburðar eru um 15% heimila sem eru eingöngu með lán í krónum í sömu stöðu. Skuldsetning heimila vegna bílakaupa virðist mikilvægur þáttur þess vanda sem við er að etja. Þau 23% heimila sem eiga í greiðsluerfiðleikum skulda 42% af heildarbílaskuldum.

Barnafólk er mun líklegra til að eiga í greiðsluerfiðleikum en barnlaus heimili en um þriðjungur einstæðra foreldra og 27% hjóna með börn eru líkleg til að eiga erfitt með að ná endum saman. Ungt barnafólk sem tók lán til íbúðakaupa eftir 1. janúar 2006, þ.e. seint í húsnæðisbólunni, er líklegra en aðrir til að glíma við greiðsluvanda. Vísbendingar eru um að tæplega 40% þeirra nái vart endum saman. Hlutfall heimila í vanda er hæst í tekjulægstu hópunum og meginþorri þeirra sem eru í vanda hefur ráðstöfunartekjur undir 250 þúsund kr. á mánuði," segir í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert