Mannamót í stað hestamóts

Glaumbær í Skagafirði.
Glaumbær í Skagafirði. mbl.is/Ómar

Sveitarfélagið Skagafjörður, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði, hestamannafélögin í Skagafirði og Hrossaræktarsamband Skagafirðinga hafa ákveðið að snúa vörn í sókn og blása til Sæluviku í lok júní á þeim tíma sem halda átti landsmót hestamanna á Vindheimamelum.  

Ákveðið var að fresta landsmóti hestamanna um ár vegna hrossapestar. Búið var að skipuleggja móttöku þúsunda gesta á Vindheimamelum dagana 27. júní til 5. júlí.

Meðal þess sem í boði verður fyrir þá sem sækja Skagafjörð heim þessa viku verða Lummudagar með glæsilegum skemmtiatriðum, knattspyrnumót fyrir stúlkur á Sauðárkróki, rútuferðir og gönguferðir um slóðir Sturlunga, Barokkhátíð á Hólum, afmælismót Golfklúbbs Sauðárkróks á Hlíðarendavelli og stórdansleikir með hestamannaívafi í Miðgarði.  Kynbótasýning mun fara fram á Vindheimamelum á vegum Hrossaræktarsambandsins.  

Ennfremur ætla hestamenn í Skagafirði að blása til hestamannamóts um verslunarmannahelgina, Fákaflugs, þar sem boðið verður upp á gæðingakeppni, kynbótasýningar, töltkeppni og kappreiðar. Fram kemur í tilkynningunni, að áhersla verði lögð á að skapa skemmtilega umgjörð í anda gömlu hestamannamótanna sem haldin voru þar áður fyrr.
 
Allar nánari upplýsingar munu birtast á www.visitskagafjordur.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert