Mikið um að vera á sjómannadegi

Sýning á allskonar fiskum fer fram á Grandagarði á Hátíð …
Sýning á allskonar fiskum fer fram á Grandagarði á Hátíð hafsins. Morgunblaðið/Ernir

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur um allt land í dag. Víða hefur hátíðardagskrá staðið yfir síðan á fimmtudag en hápunkturinn er þó í dag. Sjómenn verða heiðraðir í dag og ræður fluttar í tilefni dagsins. 

Stærstu hátíðirnar eru í Reykjavík, Hátíð hafsins, Sjóarinn síkáti í Grindavík og hátíðin í Hafnarfirði. Sýningin Íslenskir fiskar, sem Hafrannsóknarstofnunin stendur fyrir, er í fullum gangi á Grandagarðinum á Hátíð hafsins. Sportkafarar grilla skelfisk, andlitsmálun fyrir börn, fjölbreytileg leiktæki, kappróður og dillandi tónlist í allan dag, eins og segir á vef hátíðarinnar.

Sjómannadagsmessa fór fram í Dómkirkjunni í morgun og nýr björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Ársæls verður vígður. Klukkan 14 í dag fer svo fram hátíðadagskrá Sjómannadagsráðs á útisviðinu á Grandagarði. Þar verða sjómenn heiðraðir, Gissur Páll Gissurarson tenór syngur og Gunnar Þórðar og Hjörleifur Valsson leika nýstárlegar útsetningar á sjómannalögum. Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra mun flytja ávarp, listflugvélar sýna listir sínar, kappróðrakeppni fer fram og margt fleira.

Dagskrá Hátíðar hafsins lýkur með tónleikum Ljótu hálfvitanna kl. 16 í dag, en þeir vöktu fyrst athygli með sigurlaginu í sjómannalagakeppni Rásar 2 og Hátíðar hafsins árið 2007, Aflakló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert