Skógareldur í Heiðmörk

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. Þorkell Þorkelsson

Eldur kom upp í Heiðmörk á ellefta tímanum í morgun. Slökkvilið frá tveimur slökkvistöðvum var sent á staðinn. Eldurinn er rétt hjá Maríuhellum, en fyrir þá sem ekki þekkja til í Heiðmörk þá er það nokkuð sunnarlega í mörkinni, ekki svo langt frá Vífilsstöðum í Garðabæ.

Eldurinn hefur eyðilagt eitthvað af trjám en mest hefur brunnið af sinu og lúpínu. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu er svæðið sem brunnið hefur um 400 metrar á lengd en hann hafði ekki fengið upplýsingar um hvað það var breitt.

Tilkynning barst um eldinn klukkan kortér fyrir ellefu og að sögn varðstjóra er slökkvilið nú að komast fyrir eldinn með því að klappa hann niður, kæfa hann með þar tilgerðum verkfærum. Eldurinn er nokkuð frá veginum og því er erfitt að koma vatni á staðinn. Það hefur gert slökkvistarfið erfiðara en ella.

Að sögn varðstjóra er líklegt að búið verði að ráða niðurlögum eldsins eftir um klukkutíma, en eins og fólk þekkir ekki á vísan að róa þegar eldur er laus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert