Brynjar Nielsson: Ekki rétt að skipun dómara valdi oft titringi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Brynjar Nielsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélag Íslands, segir að það sé beinlínis rangt sem birtist í frétt á Pressunni í gær að skipun dómara í Hæstarétti hafi oft valdið titringi í samfélaginu. Bendir Brynjar á að hafi verið neinn titringur þegar Hjördís Hákonardóttir var skipuð dómari þótt hún hafi ekki verið talin hæfust umsækjenda af þáverandi dómurum við réttinn.

Segir Brynjar í pistli sem hann ritar á Pressuna að í frétt Pressunnar í gær sé tekið  dæmi um skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Jóns Steinars Gunnlaugssonar þar sem Hæstiréttur hafi talið aðra umsækjendur hæfari.

„Það er nú beinlínis rangt að skipanir dómara við réttinn hafi oft valdið titringi vegna ásakana um ófagleg vinnubrögð ráðherra. Vissulega varð titringur við skipanir Ólafs Barkar og Jóns Steinars sem dómarar Hæstaréttar töldu ekki hæfasta umsækjenda. Einhverra hluta vegna varð ekki titringur þegar Hjördís Hákonardóttir var skipuð dómari þótt hún hafi ekki verið talin hæfust umsækjenda af þáverandi dómurum við réttinn.

Það eru heldur ekki allir sammála um hvorir hafi verið faglegri við mat á umsækjendum alla jafna, dómarar Hæstaréttar eða ráðherra. Stundum var mat Hæstaréttar á umsækjendum eftir hlutlægum reglum, sem voru umdeilanlegar, og stundum eftir því hvaða sérfræðiþekkingu dómarar Hæstaréttar töldu mikilvægt að umsækjendur hefðu hverju sinni.

Ekki ætla ég að leggja mat á það hvort Ólafur Börkur eða Jón Steinar hafi verið hæfastir umsækjenda á sínum tíma en fullyrða má að báðir voru þeir mjög hæfir, eins og segja má um þá sem Hæstiréttur hafði talið hæfasta. Rétt er að benda á að Ólafur Börkur hafði áður verið farsæll dómstjóri við héraðsdóm og enginn hafði efast um að Jón Steinar var einn allra hæfasti lögmaður landsins þegar hann var skipaður í Hæstarétt. Titringur vegna skipunar þeirra er því af öðrum ástæðum en skorti á hæfni," skrifar Brynjar.

Grein Brynjars í heild
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert