Hagvöxtur að hefjast

Forsætisráðherra á Austurvelli í morgun.
Forsætisráðherra á Austurvelli í morgun. Mbl.is/Júlíus

„Við höfum staðist mikla þolraun,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli nú fyrir stundu.

Hún segir Ólaf Eggertsson bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum táknmynd stöðunnar á Íslandi.

Ólafur sé maðurinn sem tekist hafi á við tímabundna erfiðleika og yfirvinna þá - enda væri sér hugstæð myndin af honum við nýsprottnar gróðurnálarnar í túni sínu.

„Við gleðjumst yfir birtunni og gróskunni í náttúrunni og þeirri gleði sem fylgir íslensku sumri í hjörtum okkar allra. Mér er minnisstæð myndin af Ólafi bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum þegar hann handlék nýslegið grasið á jörðinni sinni.

Við sáum þar mann sem höfðu um hríð fallist hendur vegna áhrifa náttúraflanna en upplifði þennan dag uppskeru erfiðis síns, uppskeru sem fór fram úr hans björtustu vonum.

Í mínum huga er þessi góði búmaður táknmynd Íslendinga sem hafa sigrast á búsifjum, sigrast á náttúröflum og sigrast á tímabundnu mótlæti. Bóndinn á Þorvaldseyri er hetja í mínum huga eins og svo margir Íslendingar sem hafa tekist á við afleiðingar þeirra efnahagslegu hamfara sem á okkur hafa dunið af æðruleysi," sagði forsætisráðherra.

„Við erum á réttri leið,“ sagði Jóhanna. Hún sagði að Íslendingum hefði tekist á undraskömmum tíma að hefja nýja sókn eftir það áfall sem bankahrunið var.

Mörg jákvæð teikn væru nú á lofti og margt benti til betri tíðar. enda þótt þau viðfangsefni sem stjórnvöld þyrftu að takast á við væru óþrjótandi. Á þessu ári hefði krónan styrkst um 10%, vextir hefðu lækkað mikið og verðbólga sömuleiðis. Margt benti sömuleiðis til að hagvöxtur hæfist síðar á þessu ári. Ráðherrann sagði að þrátt fyrir þetta væri víða þröng fyrir dyrum. Margar fjölskyldur væri í vanda staddar. Mikilvægt væri að bjóða úrræði sem gögnuðust sem flestum en ekkert þó meira en traust efnahagslíf og atvinna - og væri atvinnuleysið nú minna en spáð hefði verið.

Forsætisráðherra kvaðst binda miklar vonir við stjórnlagaþingið sem nú er fyrirhugað. Haldinn yrði þjóðfundur og svo kosið til þingsins. Þingsins væri svo að móta nýja þjóðarskrá, þá fyrstu frá grunni sem Íslendingar fengju.

Ráðherrann gerði eldgosið í Eyjafjallajökli einnig að umtalsefni og þau miklu áhrif sem það hafði á ferðaþjónustu heima og heiman. Í stað þess að draga saman seglin hefðu stjórnvöld og fyrirtæki í greininni efnt til herferðar til að kynna kosti Íslands sem ferðamannalands og virtist það starf vera strax farið að bera þann ávöst sem að var stefnt.

Ólafur Eggertsson Þorvaldseyri, táknmynd bjartsýninnar að mati forsætisráðherra.
Ólafur Eggertsson Þorvaldseyri, táknmynd bjartsýninnar að mati forsætisráðherra. Ómar Óskarsson
Gríðarlegt öskufall við bæinn Þorvaldseyri
Gríðarlegt öskufall við bæinn Þorvaldseyri Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert