Búist við metaðsókn á Akureyri

Veggspjald Bíladaga Akureyrar í ár.
Veggspjald Bíladaga Akureyrar í ár.

Ef fram heldur sem horfir verður aðsóknarmet slegið á Bíladögum Akureyrar sem haldnir eru með núverandi sniði í 15. sinn. Um 10.000 manns sóttu tvo fyrstu daga hátíðarinnar og reiknar Björgvin Ólafsson, talsmaður hátíðarinnar, með því að metið frá því í fyrra, 15.000 gestir, verið slegið á morgun.

Dagskrá hátíðarinnar nær yfir fjóra daga en hún hófst með bílasýningu í íþróttahúsinu Boganum á Akureyri á fimmtudag, þjóðhátíðardaginn.

Hátíðin hélt svo áfram í gær þegar svokallað „Burn Out-mót“ var haldið á Akureyrarvelli við góðar undirtektir. Þriðji dagurinn er svo í dag þegar Olís Götuspyrnan verður haldin á Tryggvabrautinni á Akureyri en Björgvin segir hana eina löglega götukappaksturinn á Íslandi.

Aðspurður um sögu sýningarinnar segir Björgvin að forveri hennar hafi fyrst verið haldin 1974 sem árleg þjóðhátíðarbílasýning. Hún hafi svo þróast út í stærri hátíð með samtvinnuðum atburðum og sé nú haldin sem slík í 15. sinn.

„Þetta hefur þróast út í landsmót allra bílaeiganda,“ segir Björgvin sem telur aðspurður að verðmæti ökutækjanna á sýningunni hlaupi óhikað á milljörðum króna.

Verðmætið hleypur á milljörðum

„Allt í allt eru þetta einhverjir milljarðar. Við vorum með 280 sýningartæki og sum hver hlaupa á tugum milljóna eitt og sér.“

- Eru menn að keyra slíkar glæsikerrur á þjóðveginum eða eru þær fluttar í gámum norður?

„Það er allur gangur á því. Mestu molarnir, eins og maður segir, eru fluttir í lokuðum vögnum og gámum. Þessir safngripir. En flestir keyra.“

- Hefur kreppan eitthvað ýtt undir að menn séu að láta svona gullmola úr landi?

„Nei. Það er ekki hægt að segja það. Vissulega fækkaði aðeins í flotanum við hrunið þegar menn sáu hvað þeir gátu fengið fyrir bílana með því að senda þá til Norðurlandanna eða eitthvert annað. Hins vegar er plúsinn sá að það sér varla högg á vatni því það hefur komið svo mikið af tækjum í góðærinu. Þá létu margir æskudrauminn rætast. Þannig að það er til alveg rosalegt magn af bílum í landinu enn þá.“

- Hefur niðursveiflan eitthvað takmarkað svigrúm manna til þátttöku í svona mótum?

„Nei. Ekki neitt.“

Hátíðinni lýkur með spólaksturskeppni á lóð Eimskipa á Akureyri á morgun.

Nánar má lesa um hátíðina hér.

Það stöldruðu margir við glæsikerrurnar á sýningunni á fimmtudaginn.
Það stöldruðu margir við glæsikerrurnar á sýningunni á fimmtudaginn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert