Sjálfboðaliðar heiðraðir

Ragna Rósantsdóttir og Sigurður Vilhelm fengu viðurkenningar fyrir störf sín …
Ragna Rósantsdóttir og Sigurður Vilhelm fengu viðurkenningar fyrir störf sín hjá Fjölskylduhjálp Íslands Árni Sæberg

Fjölskylduhjálp Íslands veitti í dag tveimur sjálfboðaliðum viðurkenningar fyrir störf sín í þágu félagsins. Sjálfboðaliði ársins var valinn Sigurður Vilhelm og heiðurskona nr. 2 var útnefnd Ragna Þórunn Rósantsdóttir.

Fjölskylduhjálp Íslands hélt boð nú síðdegis þar sem þrjú fyrirtæki voru útnefnd fyrirtæki mannúðar fyrir árið 2009. Þá fengu tveir sjálfboðaliðar á áttræðisaldri viðurkenningu fyrir störf sín.

Ragna Þórunn Rósantsdóttir er ein af stofnendum Fjölskylduhjálparinnar og hefur unnið við sjálfboðastörf í 18 ár. Hún vinnur þar alla miðvikudaga í fatadeild og segir gott að hafa fastan punkt til að stefna að í vikunni.

„Þetta kom mér mjög á óvart,“ segir hún um útnefninguna. Ragna starfaði fyrir Mæðrastyrksnefnd í tæp 13 ár áður en hún tók þátt í að stofna Fjölskylduhjálp Íslands árið 2004.

„Sjálfboðastarf er mjög gefandi, finnst mér. Í fyrstu var ég beðin um að koma og aðstoða í Mæðrastyrksnefnd og fannst það bara afskaplega skemmtilegt og gefandi.“

Ragna, sem er 78 ára gömul, var þó ekkert hætt að vinna þegar sjálfboðastarfið hófst en hún vann hjá Sýslumanninum í Reykjavík þar til fyrir rúmum þremur árum.

„Það er svo gaman að vinna,“ segir Ragna og bætir við að hún ætli að vinna við sjálfboðastörf eins lengi og hún geti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert