Kólumbískir flóttamenn væntanlegir til landsins

Síðast var tekið á móti 29 palestínskum flóttakonum árið 2008, …
Síðast var tekið á móti 29 palestínskum flóttakonum árið 2008, áður en kreppan skall á af fullum þunga. Ekki var tekið á móti neinum í fyrra. mbl.is/Golli

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti flóttamönnum frá Kólumbíu og eru vonir bundar við að fólkið geti verið komið hingað til lands síðsumars eða snemma í haust. Miðað er við að taka á móti fimm einstaklingum að þessu sinni.

Málið er á forræði utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra, og mun utanríkisráðuneytið veita 20 milljónum króna í verkefnið.

„Við viljum helst að þetta verði síðsumars eða snemma hausts, m.a. vegna skólamála barna,“ segir Mörður Árnason, formaður flóttamannanefndar, í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að Ísland hafi tekið á móti erlendum flóttamönnum í hálfa öld. Síðast var tekið á móti 29 palestínskum flóttakonum frá Al-Waleed-flóttamannabúðunum í Írak árið 2008. Ekki var tekið á móti neinum í fyrra vegna efnahagsástandsins.

Mörður segir að íslensk stjórnvöld hafi fengið fyrirspurn frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) þar sem þau voru spurð hvort þau hygðust standa við þá fyrirheit að taka á móti flóttafólki árlega, og hvort þau gætu þá tekið á móti fámennum hópi í stað þess að taka ekki á móti neinum.

Árið 2005 og 2007 tók Reykjavíkurborg á móti kólumbískum flóttamönnum, eða fjölskyldun einstæðra mæðra. Um er að ræða verkefni sem kallast „Konur í hættu“. Að sögn Marðar varð úr að halda því verkefni áfram, enda reynsla fyrir hendi og verkefnið hafi gengið vel.

„Við erum að rísa upp úr þessu rothöggi sem allt samfélagið varð fyrir í kreppunni og taka þátt, þó í litlu sé, í þessu alþjóðaverkefni. Við erum að sýna lit og láta vita að við séum til. Við erum líka að reyna að taka á móti fólki sem á um sárt að binda og getum verið stolt af því að gera það sem rík þjóð, þó við séum í þessum tímabundnu erfiðleikum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert