Goslokaknall undir Fjöllunum

Goslokaknallið verður í félagsheimilinu Fossbúð á Skógum.
Goslokaknallið verður í félagsheimilinu Fossbúð á Skógum. hotelskogar.is

 „Þegar svartnættið var mest undir Eyjafjöllum og askan dundi yfir sögðum við Eyjamenn við Eyfellinga að við myndum skella á goslokaknalli við fyrsta tækifæri,“ sagði Árni Johnsen alþingismaður. Goslokaknallið verður í félagsheimilinu Fossbúð á Skógum næstkomandi laugardagskvöld, 10. júlí.

Árni hefur annast undirbúning og skipulagningu skemmtunarinnar í samvinnu við kvenfélögin Eygló og Fjallkonuna og bændur undir Eyjafjöllum. Þar verður boðið upp á höfðinglegar veitingar og fjölbreytt skemmtiatriði fyrir Eyfellinga og nágranna þeirra.

„Nú hefur allt verið með kyrrum kjörum um hríð,“ sagði Árni. „Við sem þekkjum fjöllin og tölum við þau teljum að þessu sé lokið - þótt alltaf verði fyrirvarar um smá ræskingar.“

Árni sagði að margir hafi lagst á eitt um að gera goslokaknallið að veruleika. Hótel Rangá lánar Fossbúð undir skemmtunina. Þar verður boðið upp á kjötsúpu frá Sláturfélagi Suðurlands, humarsúpu frá Grími kokki í Vestmannaeyjum, öl og gosdrykki frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson og Hraun frá Helga Vilhjálmssyni í Góu.  

Konur í kvenfélögunum Eygló og Fjallkonunni munu annast matseld og bera fram veitingarnar, sem verða ókeypis.  Þá verður efnt til markaðar með ýmsan varning sem heimafólk hafði undirbúið fyrir Hamragarðahátíðina. Sem kunnug er var hátíðinni „stungið í poka og hún flutt í 101“, eins og Árni orðaði það.

Markaðurinn verður í anddyri Fossbúðar eða utandyra eftir því sem veður leyfir. „Það er reiknað með að markaðurinn verði milli fimm og átta um kvöldið. Byrjað verður að bera fram veitingarnar upp úr klukkan átta,“ sagði Árni.

Ýmislegt verður til skemmtunar. Hljómsveitin Fjallabandið mætir til leiks en hana skipa Árni Johnsen, hljómsveitarstjóri, gítarleikari og söngvari, Einar Hallgrímsson, gítarleikari og söngvari, Grímur kokkur Gíslason á kassatrommur, Georg Kulp á harmonikku og Guðni Einarsson blaðamaður á bassa. Þá mun Þórður Tómasson í Skógum taka nokkur lög með Fjallabandinu og leika á píanó og langspil. 

Einnig koma fram Gísli Stefánsson stórsöngvari, Ómar Ragnarsson fréttamaður og skemmtikraftur og Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Árni Óli Ólafsson í Island Studio í Vestmannaeyjum útvegar hljóðkerfi og annast hljóðstjórn.

Árni Johnsen alþingismaður hefur skipulagt goslokaknallið i samvinnu við kvenfélög …
Árni Johnsen alþingismaður hefur skipulagt goslokaknallið i samvinnu við kvenfélög og bændur undir Eyjafjöllum. mbl.is/GSH
Þórður Tómasson, safnvörður í Skógum mun taka nokkur lög með …
Þórður Tómasson, safnvörður í Skógum mun taka nokkur lög með Fjallabandinu. Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert