„Sigur fyrir lýðræðið í Hafnarfirði“

Ráðningu Lúðvíks var mótmælt á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs meirihluta í …
Ráðningu Lúðvíks var mótmælt á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs meirihluta í júní. Þá fékk Lúðvík að sjá gula spjaldið. Tekið skal fram að Rúnar Sigurður var ekki á meðal viðstaddra. mbl.is/Árni Sæberg

„Undirskriftasöfnunin hefur ótvírætt haft einhver áhrif og umræðan í bæjarfélaginu,“ segir Hafnfirðingurinn Rúnar Sigurður Sigurjónsson um ákvörðun Lúðvíks Geirssonar að láta af störfum sem bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Rúnar stóð fyrir undirskriftarsöfnun í bænum þar sem ráðningu Lúðvíks var mótmælt.

Hann segir að hátt í eitt þúsund undirskriftir hafi safnast saman. Það hafi staðið til að afhenda þær í september.

Rúnar segist fagna því að Lúðvík hafi ákveðið að standa við orð sín, þ.e. þau orð sem hann lét falla fyrir kosningarnar í vor. Með ákvörðuninni hafi hann sýnt hugrekki. Menn eigi að standa og falla með sínum ákvörðunum. 

Lúðvík bauð sig fram í sjötta sæti í sveitastjórnarkosningunum í vor en náði ekki kjöri í bæjarstjórn. 

Á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs meirihluta, sem fór fram 14. júní, var ráðningu Lúðvíks mótmælt. Gerð voru hróp að liðsmönnum nýrrar bæjarstjórnar og hún fékk að sjá bæði gula spjaldið og það rauða.

Rúnar segist ekki hafa komist á þann fund. Það sé hins vegar mikilvægt að fólk láti í sér heyra. „Ég er kannski ekki sammála þessum hrópum, en að sjálfsögðu á fólk að sýna samstöðu,“ segir hann.

„Þetta sýnir að lýðræðið virkar ef fólk nennir að standa fyrir því. Þetta er sigur fyrir lýðræðið í Hafnarfirði,“ segir Rúnar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka