Eitt öflugasta hverasvæðið

Eitt öflugasta hverasvæði landsins hefur myndast í gígnum á Eyjafjallajökli. …
Eitt öflugasta hverasvæði landsins hefur myndast í gígnum á Eyjafjallajökli. Sé gosinu lokið mun draga úr hveravirkninni á næstu mánuðum. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Eitt öflugasta hverasvæði landsins er nú á toppi Eyjafjallajökuls, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar prófessors. Hann hefur verið við rannsóknir á Eyjafjallajökli ásamt hópi vísindamanna frá því á fimmtudag í síðustu viku.

Allt að 10-12 vísindamenn voru samtímis við rannsóknir á jöklinum í þessari lotu og söfnuðu þeir m.a. mikilvægum gögnum um öskufall og fleira viðvíkjandi eldgosinu.

Magnús sagði að bráðnun jökulíss í kringum gíginn hafi minnkað mikið og við það dregið mjög úr vatnssöfnun. Aska einangrar nú jökulísinn frá hitanum og bráðnun því sáralítil. Mjög lítið vatn er nú í gígnum og ekki flóðahætta.

Magnús sagði að um leið og eldsumbrotin hættu hafi gígurinn orðið að hverasvæði. Gígurinn er 500 til 600 metrar í þvermál. „Við getum kallað þetta mjög öfluga hveravirkni og eitt öflugasta hverasvæði landsins,“ sagði Magnús.

Hann sagði þessa þróun vera eðlilega. Hverasvæðið sé tímabundið og ef ekki verði frekari eldsumbrot muni draga úr hveravirkninni á næstu mánuðum.

„Þarna kom kvika upp á yfirborðið og þarna er heilmikil gosrás sem er að kólna. Bræðsluvatn úr jöklinum leitar niður í bergið og hitnar. Þetta streymir svo upp sem gufa,“ sagði Magnús. 

Engar öskusprengingar hafa orðið síðan 17. júní sl. „Þetta er allt frekar stöðugt. Með hverjum deginum sem líður verða líkurnar meiri á að þessu sé lokið. En það er ekki hægt að afskrifa eldgosið geti ekki tekið sig upp aftur,“ sagði Magnús Tumi.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert