Með njósnara í bekk

Teikning af njósnurunum tíu í réttarsal í New York.
Teikning af njósnurunum tíu í réttarsal í New York. Reuters

Ásdís Halla Bragadóttir uppgötvaði sér til mikillar undrunar í vikunni að hún var bekkjarfélagi eins af rússnesku njósnurunum tíu sem Bandaríkjastjórn gerði brottræka úr landi fyrr í sumar. Ásdís Halla kynntist njósnaranum við nám í Harvard-háskóla.

„Þetta er ótrúlega óvænt og eitthvað sem hvarflaði ekki að nokkrum manni á neinum tímapunkti. Þannig að við sem vorum með honum í náminu komum all verulega af fjöllum.“

- Hvernig kom maðurinn fyrir sjónir?

„Hann var alveg sérlega venjulegur í framkomu. Hann var þokkalega félagslyndur og ekkert við hann sem vakti einhverja sérstaka athygli. Hann var lipur og þægilegur.“

Maðurinn kom fram sem Donald Heathfield en hann heitir réttu nafni Andrei Bezrukov. Kona hans kom með líku lagi fram sem Tracey Lee Ann Foley en hún var skírð Elena Vavilova. Þau héldu heimili í Cambridge, Massachusetts, ásamt tveimur börnum á unglingsaldri og eiginkonan tók virkan þátt í félagsstarfi hans í skólanum.

Ásdís Halla og „Donald“ útskrifuðust frá Harvard árið 2000 en hún telur aðspurð að myndun góðs tengslanets í Bandaríkjunum hafi verið „númer eitt, tvö og þrjú“ í njósnum hans vestanhafs.

„Menn virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því að hann hafi komist yfir mikilvægar upplýsingar í náminu. Hann var duglegur við að hafa samband við fólk í framhaldinu. Útskriftarhópurinn hittist síðast á útskriftarafmæli við Harvard í Boston í maí,“ segir Ásdís Halla og vísar til síðasta skiptisins sem bekkjarfélagarnir sáu Don, aðeins nokkrum vikum áður en njósnirnar komust í hámæli.

Hún segir Don hafa tjáð samnemendum sínum að hann kæmi frá Kanada.

„Einhverjum fannst hreimurinn torkennilegur fyrir Kanadabúa. Hann talar mjög góða ensku en ég var ekki að velta fyrir mér hreimnum. Það var einhver sem spurði og þá sagði hann að pabbi sinn væri sendiherra og að hann hefði alist að miklu leyti upp í Evrópu og stundað nám í einkaskólum.“

Meðal annarra samnemenda Ásdísar Höllu er Felipe Calderón, forseti Mexíkó, sem bauð hópnum til að verða viðstaddan athöfnina er hann sór embættiseið í desember 2006. Ásdís Halla þáði boðið, ólíkt Don sem hafi ekki komið til Mexíkó við það tilefni.

Ásdís Halla tekur að lokum fram að Don hafi  engan áhuga sýnt á Íslandi en þeim mun betur fylgst með stöðuhækkunum samnemenda sinna í bandaríska stjórnkerfinu.

Ásdís Halla Bragadóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert