„Takmarkaður áhugi“ stjórnvalda á Bakka

Bakki við Húsavík.
Bakki við Húsavík. mbl.is/GSH

Alcoa  gerir athugasemd við málflutning Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu að iðnaðarráðherra hafi kostið að gera aðkomu Alcoa að uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík ótrúverðuga auk þess sem hún hafi fullyrt að stjórnvöld biðu enn eftir upplýsingum frá Alcoa á Íslandi um fyrirtækið hefði áhuga á að byggja álver á Bakka eða ekki.

„Frá því að vinna við verkefnið hófst hefur Alcoa af heilum hug unnið að undirbúningi að byggingu álvers á Bakka," segir í yfirlýsingunni. Hinsvegar sé verkefnið af slíkri stærðargráðu að ekki sé forsvaranlegt að ráðast í framkvæmdir nema fyrir liggi upplýsingar um tiltækt orkumagn og samkeppnishæft orkuverð þegar álvinnsla getur hafist.

Stjórnvöld hafi hinsvegar komið í veg fyrir að hægt væri að svara grundvallarspurningum um orkumagn með því að ákveða á sínum tíma að setja framkvæmdina í sameiginlegt umhverfismat og þar með tafið niðurstöðu úr matinu um a.m.k. eitt og hálft ár.

„Í maí sl. barst Alcoa á Íslandi bréf, dagsettu 15. maí, frá verkefnisstjórn Nausts, sem sett var á laggir til að gera athugun á mögulegum samstarfsaðilum varðandi nýtingu orku til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum,“ segir í yfirlýsingunni. „Í því bréfi kom fram að verkefnisstjórninni hefði verið falið „að ljúka fyrstu athugun fyrir 1. apríl 2010 og nýta svo tímann til 1. okt. 2010 til nánari viðræðna og samningagerðar við þá sem til greina koma." Í bréfinu er einnig tekið fram að Alcoa hafi, ásamt einu öðru fyrirtæki, uppfyllt öll skilyrði við val á samstarfsaðila á sviði áliðnaðar. Í niðurlagi bréfsins segir: „Í framhaldi af þessari niðurstöðu mun verkefnisstjórnin setja sig í samband við Alcoa til frekari viðræðna varðandi nýtingu orkunnar til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum." Alcoa hefur ekki heyrt aukatekið orð frá nefndinni frá því að umrætt bréf var skrifað.

Í umræddum kastljósþætti gat ráðherrann þess að Landsvirkjun hefði lagt á annan tug milljarða króna í rannsóknir á svæðinu. Í þessu sambandi er rétt að halda því til haga, sem ráðherrann gat ekki, að Alcoa hefur lagt fram um einn og hálfan milljarð króna í verkefnið. Varla ber það vott um áhugaleysi fyrirtækisins á verkefninu. Það skal tekið fram að Alcoa á Íslandi hefur fyrir löngu upplýst að það sé reiðubúið til að áfangaskipta verkefninu í samráði stjórnvöld.“

„Ákvörðun um hvort ráðist verður í jafn stórt verkefni og byggingu álvers á Bakka verður ekki tekin nema fyrir liggi nokkuð nákvæmar upplýsingar um magn, verð og afhendingu á orku ásamt því að meta nákvæmlega öll hugsanleg áhrif á umhverfið. Að því hefur verið unnið um nokkurt skeið og þeirri vinnu er alls ekki lokið.  Hins vegar er nokkuð ljóst [...] að stjórnvöld virðast hafa takmarkaðan áhuga á að haldið sé áfram við undirbúning að byggingu álvers á Bakka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert