Þukla á íturvöxnum hrútum

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, sést hér þukla á hrúti.
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, sést hér þukla á hrúti. Mynd strandir.is

Íslandsmótið í hrútaþukli fer fram í Sauðfjársetrinu Sævangi á Ströndum næstkomandi laugardag. Hrútaþukl hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár en þetta er í áttunda sinn sem haldið verður Íslandsmót í greininni. 

Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur og æðsti sauðfjárspekúlant Íslands fer fyrir dómnefnd  sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram.

Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Í tilkynningu Sauðfjársetursins segir að þeir óvönu láti duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færi þá rök fyrir máli sínu. Þeir vönu fari hins vegar eftir stigakerfi sem bændur gjörþekki.

Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum – t.d. hafa þrír efstu í vana flokknum undanfarin ár fengið meðal annars nokkra skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands.

Um kvöldið verður síðan haldið Þuklaraball í félagsheimilinu á Hólmavík með sveiflukónginum Geirmundi Valtýssyni.

Reyndir og óreyndir þuklarar hvaðanæva að af landinu eru boðnir innilega velkomnir á þessa miklu hátíð.

Hrútaþuklið hefst klukkan 14:00 á laugardaginn í Sauðfjársetrinu Sævangi á Ströndum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert